1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Orð ársins 2020

Orð ársins 2020

0
Orð ársins 2020

Nýtt ár, nýr áratugur, nýjir tímar. Í lok hvers árs verð ég frekar meyr. Það er margt sem er þakkavert og annað sem reyndi á og gaf vaxtartækifæri.Stærsta tilfinningin er líklega þakklæti í bland við óvissu þar sem ég veit ekki hvernig nýtt ár lítur út. En það er allt í lagi. Ég geri mitt besta til að fara í þá átt sem ég trúi að sé best fyrir mig, hjónabandið mitt og fjölskylduna mína. Á þessum “meyra” tíma vel ég mér orð fyrir árið framundan. Það merkilega er að í öll þau ár sem ég hef gert þetta þá hefur það ekki verið flókið. Í desember 2019 var ég til dæmis ein að keyra og var að hugsa um orð ársins 2019 sem var “agi”. Ég þurfti að aga mig á mörgum sviðum. Það er ekki alltaf auðvelt að vera sinn eigin herra, vinna á eigin vegum, vera með stóra fjölskyldu, hugsa vel um sjálfan sig, sinna hjónabandinu og svo mætti lengi telja. Til þess að vaxa þá þarf oft að aga sig og það hef ég svo sannarlega upplifað á árinu 2019. Það hefur ekki alltaf gengið vel en þegar ég lít til baka þá sé ég að ég er komin talsvert lengra en ég var í upphafi ársins 2019 og því ber að fagna. Lífið er víst langhlaup en ekki spretthlaup. En svo ég komi aftur að því þegar ég var ein í bíltúrnum þá fór ég að hugsa um árið 2020. Ég fór að velta fyrir mér hvað væri best að einblína á á á árinu. Hvað þurfti ég að læra. Hvað var gott fyrir mig að hafa í huga? Hvað var best fyrir mig, manninn minn og fjölskyldu mína. Þá poppaði upp í huga minn orðið “jafnvægi”. Það sat svo fast í huga mér að ég hugsaði með mér. Þetta hlýtur að vera orðið!

Og það er raunin. Orð ársins 2020 fyrir mitt líf er jafnvægi.

En hvernig lítur jafnvægi út? Í upphafi árs sé ég jafnvægi svona:

1. Jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta
2. Jafnvægi á milli vinnu og hvíldar
3. Jafnvægi á milli samveru og einveru
4. Jafnvægi á milli þess að vera heima og ferðast
5. Jafnvægi á milli þess að borða hollt og minna hollt
6. Jafnægi á milli bænar og þagnar
7. Jafnvægi á milli þess að skrifa og lesa
8. Jafnvægi á milli þess að vera sítengd og aftengd netheiminum
9. Jafnvægi á milli fjölskyldutíma og stefnumóta með eiginmanninum
10. Jafnvægi á milli hreyfingar og hugleiðslu

Og síðast en ekki síst, jafnvægi á milli þess að segja já og nei!

Hvað sérð þú fyrir þér á þessu nýja ári?
Hvert er þitt orð?
Hvað vilt þú einblína á?
Hvaða vaxtartækifæri sérð þú?

Gleðilegt nýtt ár

Gunna Stella