1.7 C
Selfoss

Nýársnóttin: Ævintýri okkar Flóamanna fyrir 50 árum

Vinsælast

Það var glatt yfir Flóamönnum fyrir fimmtíu árum eða hálfri öld. Ungmenna-félögin í austanverðum Flóanum voru kraftmikil í íþrótta- og menningarstarfi og félagslífi í sínum sveitum. Þetta voru Baldur í Hraungerðishreppi,Vaka í Villinga-holtshreppi og Samhygð í Gaulverjahreppi. Leiklistin hafði lengi verið áhugamál í Flóanum og mörg verk verið sett á svið í gegnum tíðina. Vaka hafði sviðsett Ævintýri á gönguför nokkrum árum áður og Baldursmenn höfðu sett mörg verk upp í Þingborg og farið með þau í önnur félagsheimili í héraðinu.

Nú bar það helst til tíðinda í Flóanum að Eyvindur Erlendsson var orðinn bóndi í Heiðarbæ ásamt konu sinni Sjöfn Halldórsdóttur.  Eyvindur nam ungur leiklist í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og fór síðan til Moskvu, þar sem hann stundaði nám um fimm ára skeið við Ríkisleiklistarskólann GITIS. Hann lauk námi í Mosk-vu 1967 og stjórnaði þá sviðsetningu á einu leikrita bandaríska leikskáldsins Edwards Albeens, „The Ballad  of the Sad Café,“ sem sýnt var lengi í Moskvu. Nú var þessi hámenntaði leiklistarmaður kominn heim og orðinn kúabóndi í Vill-ingaholtshreppi.  Moskva var okkur fjarlæg á þessum tíma og Sovétríkin stór-veldi hlaðin dulúð. Þar ríkti kommúnisminn og kalt var á milli stórveldanna. Þau glímdu að vísu við að koma manni til tunglsins og herja á óvinaþjóðir sínar. Ey-vindur lagðist í víking eins og forfeður okkar!  Þá voru samskipti við Rússland ekki opin eða góð, hvað þá að farsímar væru komnir til sögunnar og bréf bárust seint og illa. Sjöfn var heima í sveitinni á þessum tíma, bæði hjá foreldrum sín-um  í Heiðarbæ í Flóa og Dalsmynni í Biskupstungum þar hjá tengdaforeldrum sínum með börn þeirra Eyvindar. Hún beið eftir að Eyvindur kæmi til baka, sem ekki var sjálfgefið á dögum kaldastríðsins.

Eyvindur kom heim, dökkur á brún og brá, og menn nálguðust hann af varúð.  Mönnum þótti hann framandi en vildu umfram allt fara að huga að leiklist í Flóanum og njóta leiðsagnar þessa hálærða leiklistarmanns. Við sem vorum formenn ungmennafélaganna þriggja á þessum tíma, Helgi Stefánsson í Vorsabæ,Ólafur Einarsson á Hurðarbaki auk mín, urðum að ganga fyrir liði.  Við erum sannfærðir um að Margrét Björnsdóttir á Neistastöðum var eins og oft áður, þegar leiklist var annarsvegar, frumkvöðull að þessu framtaki. Ingjaldur Ásmundsson í Ferjunesi leysti svo Ólaf af hólmi sem fór á vertíð þennan vetur.

Nýársnóttin var það heillin

Til að ráðast í stórvirki ákváðu ungmennafélögin að hefja samstarf og  nú skyldi Þjórsárveri breytt í Héraðsleikhús Suðurlands og Eyvindi falið að velja leikrit sem hæfði hans menntun og myndi skapa áhuga og aðsókn. Skemmst er frá því að segja að Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson varð fyrir valinu. Eyvindur sá  uppsetninguna strax í hillingum. Verkið bauð upp á svo margt listrænt og þarna naut hinn hálærði leikhúsmaður sín. Hann sá um leikstjórn, gerð leiktjalda, sviðssetningu og lýsingu. Jón Kristjánsson í Villingaholti var ráðinn til aðstoðar við leiktjaldasmíði, Sigga á Grund við leiktjaldamálun, Albert Sigurjónsson á Sandbakka við lýsingu og Ólafur Sigurjónsson, bróðir hans, í Forsæti til að annast söngstjórn. Þá var komið að stærsta verkefninu að velja leikara en Nýársnóttin var stór í minningu þjóðarinnar frá því Þjóðleikhúsið var vígt 1950, en þá var hún fyrsta verkið sem sett var þar á svið með ógleymanlegum leik-urum. Svo eigum við Selfyssingar og Árnesingar að minnast þess, að grunnur hringsviðsins í Þjóðleikhúsinu var smíðaður úr járni úr okkar gömlu Ölfusárbrú, sem hrundi árið 1944.

Búandfólk og krakkar verða leikarar

Ég minnist þess að nú hófst umræðan um það hverjir gætu virkilega farið með hlutverkin, þar sem áhugamenn áttu að keppa við þá landsfrægu fyrir sunnan. Ég gleymi seint fundum þar sem Eyvindur sat eins og allsherjardómari að radd-prófa og skynja leikarahæfileika okkar Flóamanna. Fljótlega varð niðurstaðan sú, að Gunnar Halldórsson á Skeggjastöðum léki álfakónginn, enda bæði radd-maður og söngmaður og sviðsvanur. Sjöfn Halldórsdóttir, kona Eyvindar, hafði allt til að bera sem Áslaug álfkona og þarna voru þrjár glæsilegar ungar konur til að leika dætur álfakóngsins, Mjöll, Heiðbláin og Ljósbjört. Í þau hlutverk völdust Arndís Erlingsdóttir á Galtastöðum, Halla Aðalsteinsdóttir í Kolsholti og María Tómasdóttir í Skálmholti. Hlutverkin í sjónleiknum eru 19 talsins og auk þess huldufólk og álfar. Með hlutverk álfanna fóru Jónas og Atli Lillendahl, Reynir Þór Eyvindarson, þær systur hans Ásta Guðrún og Heiðrún Dóra Eyvindardætur og Margrét Lillendhal.

Nýársnóttin hefur þann boðskap að flytja, að hún er sigur þess góða yfir hinu illa. Áslaug álfkona er heilladís landsins í sögunni, en álfakóngurinn er argur harðstjóri meðal álfa og óvinur manna. Enginn þorir að rísa gegn kóngi nema Áslaug álfkona.  Guðrún var tvítug stúlka úr mannheimum, en hún var leikin af Sigrúnu Gísladóttur frá Lækjarbakka. Um hana snýst harmurinn að mestu, en hana ætlar kóngurinn að æra á nýársnótt og unnusti hennar var Jón, afsprengi álfkonu og mennsks manns, sem leikinn var af Róbert Maisland á Þjótanda. En fyrirmyndin að Jóni í verkinu er Ólafur Liljurós. Svo fyllir Eyvindur sviðið af álfum og huldufólki bæði fullorðnu og börnum sem syngja og dansa í glæstum búning-um. Lykilmenn eru þar Reiðar, sendimaður kóngsins, leikinn af Sigurði Guð-mundssyni frá Langstöðum, Húnbogi stallari konungs, leikinn af Agli Erni Jó-hannessyni, og Svart, þræl álfakóngsins, leikur greinarhöfundur, Guðni Ágústs-son frá Brúnastöðum. Álfasveina leika þeir Pétur Hermannsson frá Langholti, Jón Kristjánsson í Villingaholti og Ómar Breiðfjörð á Grund. Enginn gleymir söng Heiðbláinnar í lok verksins, þar sem Halla Aðalsteinsdóttir söng: „Ein sit ég úti á steini.“ Ólafur Sigurjónsson stýrði tónlist og söng, sem þótti magnaður í allri framsetningu. Mannfólkið lék hinsvegar Tryggvi Bjarnason á Lambastöðum, sem fer með hlutverk Guðmundar bónda, Margrét M Öfjörð í Gerðum, sem leikur Margréti, konu hans, Margrét Björnsdóttir á Neistastöðum, sem leikur Önnu, systur hennar. Jón fósturson þeirra leikur Róbert Maidsland, Guðrúnu unnustu hans leikur Sigrún Á Gísladóttir  eins og áður sagði.  Sigríður Bjarndóttir  á Litla-Ármóti leikur Siggu þjónustustúlku, Kristinn Helgason í Halakoti leikur Grím, fyrrverandi verslunarmann, og Sigurður Björgvinsson á Neistastöðum leikur Gvend Snemmbæra.  Í sönginn bætast svo Jón Ólafsson á Syðra-Velli,Þóra Sigurjónsdóttir á Lækjarbakka og Guðmunda Jónsdóttir í Vorsbæjarhól og Þór-arinn Sveinsson í Kolsholti lék á trompet.

„Héraðsleikhúsið,“ í Þjórsárveri sýndi leikritið ellefu sinnum fyrir troðfullu húsi í aprílmánuði 1970 við góðar undirtektir. Minnisstætt er, að margir leikarar og vinir Eyvindar komu á sýningarnar og lofuðu efnistökin.

Grímur ærist mögnuð sund

Einhver magnaðasta stund á hverri sýningu var þegar Kristinn í Halakoti í hlut-verki Gríms vitlausa varð geðveikur og ærðist gjörsamlega.  Og þess minnist ég að svo vel lifðu gestir í salnum sig inn í verkið, að einhverju sinni þegar Kristinn ærðist þá reis upp maður og vildi kalla á sjúkrabíl, en hann hélt í alvöru að Krist-inn hefði misst vitið. Ég heyrði talað um að Kristni hefði boðist að leika gesta-hlutverk í Þjóðleikhúsinu fyrir frammistöðu sína. Jafnframt var það svo þegar undirritaður í hlutverki Svarts þræls kom inn á sviðið á handahlaupum biksvart-ur með sveðju í höndunum og hrópaði að áhorfendum með ógnar sterkri bassa-rödd: „Hér hýmið þið og gónið. Er það hjúum skömm að hundrota svo tímann,“ og otaði sveðjunni að sýningargestum, þá fóru börn að gráta og varð stundum að bjarga þeim úr salnum, slík var ógnin. Ekki gleymast heldur tilþrif Gvendar Snemmbæra sem Siggi á Neistastöðum lék af snilld. Eins fór Sigrún með hlut-verk Guðrúnar af mikilli tilfinningu.

Skáldið fellir ritdóm

En látum Guðmund Daníelsson skáldið og ritdómarann í Héraðsblaðinu Suðurlandi hafa orðið. „Leiktjöldin í Nýársnóttini eru verk Eyvindar, gerð af feykilegum hagleik og hugviti. Tel ég leiktjöldin ásamt fágætlega kunnáttusamri notkun ljósa undir stjórn Alberts Sigurjónssonar athyglisverðasta afrek sýning-arinnar, enda þótt hlutur sumra leikaranna sé mikill og góður,svo sem Kristins Helgasonar í Halakoti í hlutverki Gríms fyrrum verslunarmanns, Guðna Ágústs-sonar í hlutverki Svarts þræls, Sjafnar Halldórsdóttur í hlutverki Áslaugar álf-konu, Sigurðar Björgvinssonar í hlutverki Gvends snemmbæra. Dætur álfa-kóngins, Mjöll, Heiðbláin og Ljósbjört leiknar af Arndísi Erlingsdóttur, Höllu Aðalsteinsdóttur og Önnu Maríu Tómasdóttur.“ Guðmundur bætir svo við: „og þannig mætti að vísu lengi áfram telja upp svo góða liðsmenn í þessu umfangs-mikla ævintýrasviðsverki.“

Álfakóngurinn drepinn og hverfur af sviðinu

Sá er þetta ritar á margar góðar minningar frá þessum yndislega vetri. Æfingar voru erfiðar og tímafekar og Eyvindur gerði miklar kröfur til leikaranna. Mér fannst hann bæði  mjúkur og harður eins og hann væri að hnoða leir úr okkur til að ná persónusköpun hvers og eins. Að sumu bjuggum við sem í verkinu vorum að alla ævi,í raddbeitingu og framkomu á sviði.  Margar „brellur,“voru í verkinu og mjög tæknilegar.  Kóngurinn var stórbrotinn í höndum Gunnars Halldórs-sonar,þegar hann þuldi bölbænir álfakóngsins og harma úr hásæti sínu. Ég sem Svartur þræll var eins og hundurinn hans og hlýddi harðstjóranum. En undir lok verksins fær Áslaug álfkona Svart til að drepa kónginn. Kóngurinn sat í hásæti í rauðum kirtli, þegar Svartur stökk uppá borðið með tilþrifum, beitti sveðjunni og stakk kónginn milli herðanna banastungu. Kóngur rak þá upp hryllingslegt dauðaöskur. Alger dauðaþögn varð meðal sýningargesta og mátti heyra saum-nál detta,en þá greip Svartur þræll konungsskikkjuna og með handasveiflum teygði hann skikkjuna til lofts og braut hana síðan saman og þá sá fólk að kóng-urinn var horfinn. Um þetta urðu miklar umræður hvernig kóngurinn hvarf. Fór hann upp úr loftinu eða niður úr gólfinu? Meðal margra þeirra var faðir minn, Ágúst á Brúnastöðum, sem bað mig að segja sér ekki frá hvað um kóngsa varð. Hann ætlaði að finna það út sjálfur. Hann kom á tvær eða þrjár sýningar og réði ekki framúr þrautinni. Svo mögnuð var dauðastund kóngsins og haganlega gerð af Eyvindi, að allra augu beindust að Svarta djöflinum og allir virtust mæna á leikræn brögð Svarts með skikkjuna. Kóngurinn gekk hinsvegar út í augsýn allra en enginn sá hann. Svona voru leikrænar sjónhverfingar Eyvindar úr hinu mikla námi í Moskvu. Ég vil þakka samleikurum mínum þennan vetur og Eyvindi Er-lendssyni fyrir að hafa gert okkur þetta kleift að takast á við svo glæsilega sýn-ingu sem Nýársnóttin var.  Og ennfremur leikhúsgestum sem enn minnast lít-illar stundar í Þjórsárveri fyrir fimmtíu árum að verða. Nú bíðum við eftir Menningarsalnum á Hótel Selfossi til að setja upp Nýársnótt-ina á nýjan leik í Flóanum.

Nýjar fréttir