3.9 C
Selfoss

Jólaguðspjall sauðfjárbónda

Vinsælast

En svo bar til um þessar mundir, að boð kom frá Búnaðarsambandi Suðurlands, um að skrásettir hefðu verið hrútar á stöð. Upphófst þá mikið fát meðal búa allra sem æddu um í reiðileysi þar sem ekki var opinbert orðið bókfell það er Hrútaskrá nefnist. Var að lokum sendur maður helgur að sækja steintöflur þær sem hin heilaga vitneskja var rituð á. Dreifðust þær fljótt og vel út um sveitir og brátt voru flest orðin sérfróð, að eigin mati, um efni þeirra. Létu bændur ekkert tækifæri ónotað til að setjast á rökstóla og ræða efni arkanna, tölfræði, bringu, útlögur og BLUP hinna heilögu skepna.

Fóru þá og í hópferð bændur og búalið víðsvegar úr sveitum til borgar Kjartans Björnssonar, hvar þeir versluðu í Pylsuvagninum og héldu svo til athugunar á skepnum þeim er fyrr voru nefndar. Tók þar á móti þeim Páll postuli og leiddi um húsakynni og kynnti valkosti hátíðar frjósemi, ljóss og friðar. Bændur þukluðu, hummuðu og höuðu, settu upp svip spekingslegan og ályktuðu hver með sínu neftóbaksnefi.

Þegar athuganir höfðu verið gerðar að vild var haldið til síns heima og hafist handa við endurtekinn lestur taflanna og áframhaldandi rökræður. Þóttust menn nú geta rætt málin af töluvert meiri sérfræðiþekkingu, þar er sjón er vissulega sögu ríkari. Fylgdu þessu jafnan andvökunætur, valkvíði og almenn angist hin alvarlegasta.

Er nær dregur þeim tíma er samkvæmt tímatali nefnist hrútmál fer fiðringur að læsast í þær tvær dýrategundir er nefnast annars vegar hrútar og hins vegar bændur. Eru þá enn ónefndar ærnar sem finna knýjandi þarfir náttúrunnar freyða um líkamann. Gegna nokkrar því kalli með þeirri fornu siðvenju að planta sér á hrútakofaveggi og senda bændum biðjandi augnaráð og bíða og vona að ástmögrunum verði út hleypt. Vissulega er mótstöðuafl bænda orðið með veikara móti og oftar en ekki nýta þeir skjól myrkurs og skammdegis til þess að koma á leyndum ástarfundum milli gimbrar og hrúts. Ef elskendurna vantar aðstoð til verknaðarins stendur iðulega ekki á mennskri hjálparhönd.

Í fyllingu þess tíma er almenningur nefnir aðventu rennur upp ein hinna helgari stunda til sveita; sæðingar. Eftir andvökunætur og yfirlegu hinnar helgu bókar eru sanntrúaðir oftar en ekki búnir að heita á ákveðinn guð og sverja honum hollustueið, þó svo að fjölgyðistrú sé í hávegum höfð. Dagarnir hefjast á því að æðsti prestur hefur samband við mekka sinnar trúar og leggur inn pöntun á hinu heilaga sæði sem hann óskar að hljóta á þeim degi. Því næst er hinum hefðbundnu skyldustörfum komið af á sem léttastan og löðurmannlegastan hátt. Alvaran tekur við þegar fórnardýrið er sótt í hrútakofann. Þéttofnum kaðli er brugðið um horn þess og það teymt að blótstalli, sem raunar er hópur þeirra úrvals áa sem bærinn hefur yfir að ráða. Þar er fórnardýrið leitt milli systra sinna af sömu tegund til uppgötvunar á líkamlegu ástandi þeirra, löngunum og þrám. Sýni einhver þeirra honum ótilhlýðilegan áhuga skal stjórnandi athafnarinnar hinsvegar snarlega kippa í kaðalinn svo holdlegt samræði geti ekki átt sér stað. Ánni er ætlað annað hlutskipti.

Er leit þessari er lokið fær fórnardýrið í einstöku tilfelli umbun erfiðis síns með náinni nálgun við eina á sem í réttu ástandi er. Oftar en ekki er það þó flutt heim án þess að fá svalað þeim fýsnum sem bíða skulu betri tíma. Hinar blæsma skepnur eru fluttar í sérstakan geymslustað þar sem þær bíða hápunkts helgiathafnarinnar og undirbúa sig með hugleiðslu og innri hreinsun. Bændurnir senda þá úr sínum flokki hinn útvalda til pílagrímsfarar þeirrar, að sækja hinn heilaga lífsvökva. Er sendiboðinn snýr aftur úr óvissuför sinni – sem oftar en ekki er bæði tvísýn og hættuleg þar sem ferðalög eru hæpin iðja að vetri til og þar fyrir utan er allendis óvíst að skrínið komist á réttan áfangastað á réttum tíma – er fjandinn laus.

Bændur þjóta þá upp til handa og fóta og oft vilja gleymast hinir fornu siðir helgiathafnarinnar, það er, að hafa hægt um sig. Blessun hinna útvöldu skepna er þá dreift jafnt á hinar blæsma ær er valdar eru af fullkominni nákvæmni til klaufa þeim er bestur er talinn í samkrull með hverri fyrir sig. Þetta atferli gengur um kvart úr viku og stundum lengur.

Er þessum kafla líkur hefst annar ekki síðri sá er nefndur er tilhleypingar. Halda þá bændur enn einbeittir til beitarhúsanna. Upphefjast þar aðrar eins bollaleggingar og áður hafa verið viðhafðar um skiptingu og skyldleikaræktun, lengd, lit, háfættni, læpuhátt og styggð. Eftir dágóða stund og heilmörg orð eru línurnar loks lagðar fyrir komandi tíma. Ærnar eru komnar í ákveðin hólf og bíða þess að hátíðin gangi í garð. Bændur halda heim vopnaðir köðlum og kerrum í tilgangi einum, að sækja hrúta.

Hinir þrautpíndu kynbótahrútar sem árið um kring hafa ekkert þráð heitar en blæsma kindur fyllast nú óumræðilegum eldmóði og fögnuði. Er þeir hafa verið fluttir til hinna helgu véa gleyma þeir öllum siðum og venjum og þeysast út á völlinn líkt og Íslendingar í amerískri verslunarmiðstöð. Bændurnir fylgjast brosandi með og bíða eftir hinum heilaga hnykk, sem er uppspretta nýs lífs.

Um það leiti sem hápunkti þessara ástarleikja er náð, kumr og hnykkir fylla fjárhús og grunnurinn er lagður að nýjum lífum og fæðuöryggi, hringja kirkjuklukkur. Hugur heimsbyggðarinnar reikar í annað og fjarlægara fjárhús, hvar eflaust hefur verið hleypt til eins og hér. Menn gleðjast yfir lífi sem fæddist og dó fyrir fólkið, rétt eins og sauðkindin hefur gert fyrir Íslendinga frá ómunatíð. Hátíð ljóss og friðar er gengin í garð.

Textinn birtist fyrst í skó Rökkva Hljóms Kristjánssonar fyrir jólin 2014.

Harpa Rún Kristjánsdóttir, skáld og búandakerling.

 

Nýjar fréttir