-5.5 C
Selfoss

Kveðja til Sunnlendinga

Vinsælast

Það er til siðs á þessum árstíma að líta um öxl og rifja upp liðið ár. Fyrir mig sem þingmann Suðurkjördæmis standa ferðir um kjördæmið upp úr. Ég hef kappkostað að fræðast um og kynna mér hið víðfeðma Suðurkjördæmi og er svo lánsamur að hafa fengið að kynnast  afreksmönnum á ýmsum sviðum hins sunnlenska samfélags. Þannig hef ég heimsótt bændur sem stunda ólíkan búskap við ýmis konar aðstæður og hitt sjómenn sem stunda allra handa veiðar. Ég hef kynnt mér fyrirtækjarekstur af öllum stærðum og gerðum og komið við í opinberum stofnunum um allt kjördæmið sem gegna mikilvægu hlutverki, hver á sínu sviði.

Álögur á fyrirtæki of háar

Mér er fullljóst hversu harðgerðir og einbeittir íbúar Suðurkjördæmis eru. Lítil fyrirtæki blómstra sem aldrei fyrr sem kostar mikið harðfylgi og dug þeirra sem koma þeim á koppinn, eins og þeir þekkja sem hafa komið nálægt atvinnurekstri.

Álögur á fyrirtæki eru of háar á Íslandi. Flækjur í hinu opinbera kerfi taka of mikinn tíma og orku þeirra sem standa í rekstri fyrirtækja. Þessu þarf að breyta, lækka þarf tryggingagjald til muna og gera mönnum auðveldara að reka sín litlu fyrirtæki svo þeir geti ráðið til sín fleira starfsfólk, gert betur við það í launum og ráðist í fjárfestingar til að hagræða í rekstri.

Árborgarsvæðið hefur vaxið mikið síðustu ár og nýlega var því fagnað að íbúar sveitarfélagsins urðu tíu þúsund.

Því ber að fagna en um leið gerir aukinn íbúafjöldi meiri kröfur til þeirra sem sveitarfélögum stýra sem og til ríkisvaldsins. Hin mikla mannfjölgun kallar á aukna þjónustu á öllum sviðum samfélagsins.

Ný brú yfir Ölfusá og sjúkraflutningar

Stækkandi samfélagi fylgja nýjar áskoranir í þjónustu við íbúana og þar skipa samgöngumálin stóran sess. Brýnt er að flýta byggingu nýrrar Ölfusárbrúar en samkvæmt samgönguáætlun verður hún ekki tilbúin fyrr en þegar vel er liðið á næsta kjörtímabil. Það er óásættanlegur biðtími þar sem núverandi brú frá stríðslokum hefur látið á sjá í áranna rás og var vissulega ekki hugsuð fyrir þann gríðarlega umferðarþunga sem um hana fer í dag.

Aukinn fjöldi ferðamanna um hið magnaða og heillandi Suðurland kallar á gagngera endurskoðun á heilbrigðisþjónustu í fjórðungnum. Einn angi hennar og það afar mikilvægur eru sjúkraflutningar. Aðalstarfsstöð sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er á Selfossi. Þjónustusvæðið er um 30.000 km² frá Hellisheiði að Höfn í Hornafirði. Á fimm árum hefur sjúkraflutningum á svæðinu fjölgað um 40%. Á árinu 2018 fóru sjúkraflutningamenn á Suðurlandi í yfir fjögur þúsund sjúkraflutninga.  Mikilvægt er að viðbrögð séu snör og sjúkrabílarnir í góðu ástandi.

Eftir langa bið eru framkvæmdir hafnar við byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi. Ríkisvaldið þarf að klára samninga við þessar stofnanir sem gegna svo veigamiklu hlutverki í samfélaginu.

Öflug lögregla

Lögregluna þarf að efla um land allt en ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem flestir ferðamenn stinga niður fæti. Löggæslumenn í landshlutanum vinna gríðarlega gott starf við erfiðar aðstæður. Umferðaróhöpp eru of mörg og efla þarf umferðaröryggi með öllum ráðum.

Ég óska lesendum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Karl Gauti Hjaltason
þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir