-4.4 C
Selfoss

Fjallið eina – „skíðaparadís“ Selfyssinga

Vinsælast

Tómas Ellert Tómasson

Fyrr á árinu kom hópur ungs fólks á fund starfsmanna Svf. Árborgar og óskaði eftir því að komið yrði upp snjóbrettabrekku á „fjallinu eina“ á Selfossi. Skemmst er frá því að segja að starfsmenn sveitarfélagsins tóku strax vel í þá hugmynd og unnu af krafti með landslagshönnuðum að útfærslu hugmyndarinnar. Afrakstur þeirrar vinnu hefur nú litið dagsins ljós og mun hún vonandi verða til þess að nota- og skemmtanagildi „fjallsins eina“ verði enn meira en áður.

Á suðurhlið ,,Fjallsins eina“ á Selfossi munu verða útbúnar tvær brekkur fyrir snjóbretti. Önnur mun liggja til suðurs út úr miðri suðurhlíð núverandi hóls og sveigja til austurs, en hin mun liggja að nokkru leyti samhliða núverandi sleðabrekku, en sveigir svo til vesturs og mætir þar hinni brekkunni. Á milli brekknanna verður um 30m langt slétt svæði. Á, og við, slétta svæðið verður komið fyrir útbúnaði sem mun bjóða upp á ýmsa fleiri möguleika á nýtingu svæðisins. Rennslisstefna beggja brekka mun beina iðkendum frá Langholtinu og einnig mun verða komið upp hindrunum svo að skíða- og sleðafólk renni ekki út af svæðinu. Sérsmíðuðum handriðum verður komið upp við enda brekknanna sem býður uppá ýmsa viðbótarmöguleika á nýtingu svæðisins til að æfa stökk og annars konar skíðaloftfimi. Framkvæmdir við brekkurnar munu hefjast svo fljótt sem verða má.

Þakkir fá unglingarnir fyrir frumkvæðið að hugmyndinni, starfsmenn sveitarfélagsins fyrir að taka svo vel í hana, sjá tækifærin í henni og vinna að því að gera hana að veruleika ásamt með snjallri útfærslu landslagshönnuðanna.

Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista í Svf. Árborg og formaður Eigna- og veitunefndar.

 

 

 

 

Nýjar fréttir