-1.6 C
Selfoss

Bros getur dimmu í dagsljós breytt

Vinsælast

Í Skaftárhreppi hefur haustið verið hlýtt og gott og varla sást snjór fyrr en í desember. Samkomur hafa verið nokkrar svo sem jólamarkaður í Kirkjuhvoli, Stofubandið hélt  jólatónleika í kapellunni á Kirkjubæjarklaustri,  tónlistarmaðurinn Krummi var með tónleika á Hótel Laka og aðventuhátíðin var 8. desember í Prestsbakkakirkju. Þar messaði Sr. Ingimar Helgason sem tók við starfi sóknarprests í nóvember 2019.  Það er alltaf eitthvað um að vera í sveitinni og svo er sundlaugin og íþróttahúsið opið alla daga.

Jólabókaflóðið er spennandi á hverju ári og að þessu sinni eru tvær bækur eftir íbúa Skaftárhrepps. Það er bókin Nikki kúr þar sem Guðmundur Óli Sigurgeirsson segir frá dvöl Nikka í heimavistarskóla fyrir nokkrum áratugum. Skemmtileg þroskasaga drengs þar sem skiptast á skin og skúrir í veröld unglinganna. Umhverfið er gjörólíkt því sem er í dag en vandamálin kunnugleg.

Bókin Our Land Food and Photography er verk Höddu Bjarkar Gísladóttur og Hauks Snorrasonar í Hrífunesi. Fyrri hlutinn er matreiðslubók þar sem eru uppskriftir að þeim réttum sem Hadda hefur þróað í Hrífunes Guesthouse. Réttirnir eru að mestu úr íslensku hráefni en kryddið er fá öllum heimshornum.  Seinni hluti bókarinnar er ljósmyndabók þar sem eru myndir af íslenskri náttúru. Haukur er ljósmyndari og hafa þau hjónin rekið ljósmyndatengda ferðaþjónustu í Hrífunesi. Flestar ljósmyndanna eru teknar í Skaftárhreppi.

Mannlífið og atvinna fólks í Skaftárhreppi hefur mikið breyst eftir að ferðamenn fóru að leggja leið sína hingað allan veturinn. Nú er svo komið að flestir sem búa í Skaftárhreppi vinna við ferðaþjónustu. Hér eru fjögur hótel og margir aðrir gististaðir sem eru opnir allan veturinn.

Árið 1994 tók Hótel Klaustur til starfa í nýju húsi og var það mikið framfaraskref frá því sem verið hafði að gistihúsið á Klaustri var eini matsölustaðurinn á milli sanda. Uppbyggingin í ferðaþjónustu hefur verið hröð á þeim 25 árum sem liðin eru frá þessum tímamótum. Með breyttum atvinnuháttum hefur mikið breyst flóra íbúanna. Margir íbúar í Skaftárhreppi eru frá öðrum löndum, fólk sem kemur til Íslands til að vinna. Sumir setjast að, aðrir eru alltaf á leiðinni heim en dvelja í mörg ár og enn aðrir koma og stoppa stutt.

Í jólamánuðinum er ástæða til að sýna öllum kærleika og þá ekki síst því fólki sem hingað er komið til að leggja sitt af mörkum í okkar samfélag. Sumir fóru óviljugir að heiman, höfðu ekki möguleika heima, aðrir eru í ævintýraleit. En hvort sem er, eiga flestir það sameiginlegt að hugsa meira heim um jólin en á öðrum tímum. Sýnum fólki áhuga og vinsemd. Það er mikilvægt að spjalla við þá sem við hittum, spyrja um jólasiði, jólamat, fjölskylduna, hvers viðkomandi saknar mest og svo margt fleira. Ekki síður er gott að reyna að fræða fólk um íslenskar jólahefðir og okkar furðulegu þjóðhætti eins og illa innrætta jólasveinana, geðilla móður þeirra Grýlu og ótrúlegan jólaköttinn sem étur þá sem ekki fá nýja flík.

Og þó að við þekkjum fólk ekki persónulega getum við lagt okkar af mörkum með því að brosa og sýna öllum hlýju og umhyggju sem eru að stjana við okkur í jólaösinni, hvort sem það er starfsmaður í afgreiðslu eða þjónn á veitingastað.

Einar Benediktsson (1864-1940) skáld orti ljóðið Einræður Starkaðar þar sem hann minnir fólk á hversu mikilvægt er að koma vel fram við náungann.

 

Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

 

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Lilja Magnúsdóttir

kynningarfulltrúi Skaftárhrepps

 

 

Nýjar fréttir