3.9 C
Selfoss

Gærdagur og nótt stórslysalaus þrátt fyrir talsvert eignatjón

Vinsælast

Þegar Dagskrána bar að garði í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi nú í morgun var rólegt yfir mannskapnum. Verið var að ljúka því að koma heilbrigðisstarfsmönnum til síns heima og öðrum á vakt. Undirbúningur var hafinn að því að leysa úr málum fólks sem gist hafði í fjöldahjálparstöðvum m.a. á Borg í Grímsnesi. Þá er verið að ryðja vegi og koma hjólum samfélagsins af stað aftur.

Stórslysalaust þrátt fyrir tjón á eignum

Í samtali við starfsmenn á vakt kom fram að enginn stórslys á fólki hefðu orðið eða atburðir sem teljandi væru annað en eignatjón sem var í sumum tilfellum talsvert. Þakplötur, skúrar og ýmislegt fleira varð veðrinu að bráð. Það verður farið í það að skoða og meta þau mál betur eftir því sem birtir.

Sjúkraflutningar gengu vel

Þrátt fyrir óveður gengu sjúkraflutningar vel. Samkvæmt upplýsingum þurftu björgunarsveitir að aðstoða sjúkraflutningamenn í tveimur eða þremur tilfellum. Þá voru ráðstafanir til staðar ef fara þyrfti yfir heiðina með sjúklinga en til þess kom ekki.

Það að fólk héldi sig heima lykilatriði

Í samtölum við alla viðbragðsaðila kom fram að ástæða þess hve vel tókst til, ef þannig mætti að orði komast, var að fáir voru á ferli og fólk hlýddi fyrirmælum. „Það er lykilatriði að fólk hélt sig heima. Mann- og tækjakostur er fljótur að fara ef sinna þarf verkefnum eins og föstum bílum eða þessháttar og viðbragðstími lengist. Ef við tökum sem dæmi að 50 fastir bílar séu á heiðinni þá er það gífurleg vinna sem tekur langan tíma og tekur upp tæki og mannskap. Sé ekki talað um tafir sem hljótast af því þegar svo á að fara að opna. Opnun vega getur tafist um klukkustundir séu bílar þvers og kruss um vegina. Að því sögðu sinnum við auðvitað öllum útköllum og fólk á ekki að hika við að hafa samband. Það er þó rétt að árétta það sem best að það hjálpar öllu samfélaginu mikið að fóllk haldi sig heima sé svona veðra von.“

Nýjar fréttir