2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Sjálfstæðismenn í Ölfusi, þið hafið ekkert að óttast nema óttann sjálfan

Sjálfstæðismenn í Ölfusi, þið hafið ekkert að óttast nema óttann sjálfan

0
Sjálfstæðismenn í Ölfusi, þið hafið ekkert að óttast nema óttann sjálfan
Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 28. nóvember sl. var tekið fyrir erindi frá Hveragerðisbæ um sameiningaviðræður sveitarfélaganna tveggja. Erindi um sameiningarviðræður hafði verið samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar þar sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Okkar Hveragerðis og Framsóknarflokksins lýstu einlægum vilja til viðræðna. Skemmst er frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi hafnaði ósk Hveragerðisbæjar en minnihluti O-listans vildi hefja viðræður og kanna hvort að flötur væri á sameiningu sveitarfélaganna.

Sameining sveitarfélaga

Til ársins 1946 voru Hveragerði og Ölfus eitt sveitarfélag, í Ölfushreppi. Það ár klauf hin nýja byggð í Hveragerði sig frá Ölfushreppi og myndaði sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp.  Síðan hafa verið tvö sveitarfélög í Ölfusi sem nú bera stjórnsýsluheitin Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus. Miklar breytingar hafa orðið á sveitarstjórnarstiginu síðustu frá því að Ölfusi var skipt í tvö sveitarfélög og hefur sveitarfélögum t.d. fækkað úr 229 í 72 frá árinu 1950. Ástæðan er fyrst og fremst að verkefni sveitarfélaga eru orðin fleiri og umfangsmeiri og stærri sveitarfélög hafa meiri slagkraft en þau minni til að veita þjónustu til íbúa og þróa sveitarfélagið í nútímasamfélagi.

Ölfusið sameinað á ný

Landfræðilega er Hveragerðisbær umlykið Sveitarfélaginu Ölfusi og er í raun lítil eyja í miðju Ölfusi, aðeins 9 ferkílómetrar að stærð á meðan Sveitarfélagið Ölfus er 740 ferkílómetrar. Upp úr 1950 byrjaði byggð að myndast í Þorlákshöfn sem er nú meginbyggðakjarninn í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þann 1. janúar 2019 bjuggu 2.628 íbúar í Hveragerðisbæ og 2.153 íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi og hefur íbúum í báðum sveitarfélögum fjölgað verulega á árinu sem er að líða. Sameinað sveitarfélag myndi því telja um 5.000 manns og yrði næst stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi á eftir Sveitarfélaginu Árborg. Það yrði gífurlega öflugt með fjölbreytta þjónustu og mikla möguleika til vaxtar hvort sem litið er til þjónustu við íbúa, auðlinda, menningar eða atvinnusköpunar. Slagkraftur sameinaðs sveitarfélags yrði mun meiri sem myndi fyrst og fremst nýtast til uppbyggingar fyrir alla íbúa.

Sjálfstæðismenn hafna 827 milljónum

Með því að útiloka sameiningu sveitarfélaganna tveggja eru Sjálfstæðismenn í Ölfusi líka að hafna framlagi upp á 827 milljónir króna sem fengist frá Jöfnunarsjóði ef af sameiningu yrði. Til samanburðar má geta þess að sú upphæð nemur tekjum Ölfuss vegna fasteignagjalda í tvö og hálft ár. Einnig má nefna að sex deilda leikskóli í Hveragerði kostaði árið 2017 um 700 milljónir króna. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða sem furðulegt er að Sjálfstæðismenn í Ölfusi hafni án þessa að vera tilbúnir að taka umræðu um sameiningu við bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar.

Ekkert að óttast

Í raun þurfa Sjálfstæðismenn í Ölfusi ekki að óttast sameiningaviðræður. Hvað getur komið út úr slíkum viðræðum sem menn geta óttast? Hafa verður í huga að með ósk um sameiningaviðræður er ekki verið að taka ákvörðun um sameiningu sveitarfélaganna heldur að kannað verði hvort að grundvöllur sé fyrir slíku með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Það er auðvitað svo í höndum íbúa beggja sveitarfélaga að taka ákvörðun um sameiningu þegar viðræðum er lokið, ef þær komast svo langt.