-1.1 C
Selfoss

Listhandverk í heimabyggð  – í jólapakkann!

Vinsælast

Handverk og hugvit undir Hamri í Hveragerði fagnar tíu ára starfsemi á þessu ári. Handverkshópurinn starfar í húsinu Egilstaðir við Skólamörk. Húsnæðið, sem Hveragerðisbær leggur til, er ætlað undir listsköpun í bænum. Segja má að þar sé hver krókur og kimi vel nýttur af asllkonar listafólki sem stundar handverki, myndlist og tónlist í víðum skilningi.

Ólíkar áttir en samhentur hópur

Sex félagskonur hafa komið sér vel fyrir á neðri hæð hússins, en það eru þær; Andrína Jónsdóttir sem tálgar og málar farfugla, Oddný Runólfsdóttir vinnur  töskur og púða úr áklæðaprufum og gardínuefnum, Violette Meyssonnier er með handgerðar sápur, kerti og skart. Hinar þrjár, Fríða Magga Þorsteinsdóttir, Hrönn Waltersdóttir og Steinunn Aldís Helgadóttir, vinna nytjahluti í leir.

Dásamlegt að setjast niður og gleyma sér í keramikinu

Dagskráin leit við á vinnustofuna í kaffibolla sem kemur úr höndum Fríðu Möggu leirlistarkonu og stutt spjall. Eftir stutt spjall um daginn og veginn spyrjum við Fríðu Möggu um aðstöðuna og félagsskapinn. „Að hafa aðstöðu sem þessa gerir mér kleift að sinna listinni minni og að vera í samneyti með öðrum listamönnum sem hefur gefið mér mjög mikið. Húsið er á besta stað í bænum og ég á margar góðar minningar úr smíðum og handmennt hér sem barn. Það er dásamlegt að setjast niður eftir amstur dagsins og gleyma sér í keramikinu,“ segir Fríða Magga. Eins og fram hefur komið er Fríða Magga leirlistarkona. Aðspurð um hvað hún vinni helst með segir hún: „Ég handrenni bolla, skálar og aðra nytjahluti úr steinleir og postulíni. Upp á síðkastið hef ég blandað svörtum sandi úr fjörunni við Þorlákshöfn saman við postulínið. Það myndar skemmtilegar andstæður og blæbrigði.“

Aðventan framundan og húsið opnar

Á aðventunni undanfarin ár hefur handverk kvennanna verið til sölu enda tilvalið í jólapakkann. „Nú þegar aðventan gengur í garð, breytum við vinnustofunni okkar í sölugallerí og bjóða bæjarbúum og sunnlendingum að koma að skoða og versla handverkið okkar, en þetta gerum við tvisvar til þrisvar á ári, á bæjarhátíðum og á aðventunni eins og núna. Áhugasamir geta komið við á Vinnustofunni Handverk og hugvit við Skólamörk. Hún verður opin laugardagana: 7. og 14. des. kl. 12  – 17 og hér verður svo sannarlega hægt að næla sér í einstakt listhandverk í jólapakkann! Kaffi á könnunni, piparkökur og heit glögg.

 

Nýjar fréttir