-5.5 C
Selfoss

Hvað á að sameina?

Vinsælast

Ég skrifaði fyrr í haust á Fjasbókarsíðu mína dulítið um nýstárlegar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga – hugmyndir sem urðu til við undirbúning sameiningarkosninga í fjórum sveitarfélögum á Austurlandi. Það er skemmst frá því að segja að þessar nýstárlegu hugmyndir hafa nú leitt til þess að í almennri kosningu var ákveðið að þessi fjögur sveitarfélög sameinist strax á næsta ári.

Tilefni þessara framhaldshugleiðinga hér eru: a) Fram komin þingsályktunartillaga sveitarstjórnaráðherra um eflingu sveitarstjórnarstigsins, einkum hótanir um  lögþvingaða sameiningu fámennustu sveitarfélaganna b) Ákvörðun Sambands íslenskra sveitarfélaga að veita þingsályktuninni brautargengi fyrir sitt leyti – án þess að að víkja málinu til þeirra sveitarfélaga sem málið snertir með beinum hætti c) Útspil Árborgar að taka af skarið og gera tillögu um sameiningu allra sveitarfélaga í  Árnessýslu – sem var útaf fyrir sig góðra gjalda verð og borin fram af tilhlýðilegri auðmýkt –  og það áhugaleysi og  neikvæðu viðbrögð sem hún hefur hlotið d) Áhugi á að þoka af stað í nærsamfélaginu umræðu um þessi sameinigarmál. Það verður á endanum alltaf hlutskipti almennra kjósenda að taka afstöðu og ráða úrslitum um framgang málsins – nema því aðeins að beðið verði eftir að lögþvinganir taki gildi. Og það kann að verða lakasti kosturinn.

Hugarfarsbreyting og heimastjórnir

Sterkasta vopn þeirra sem undirbjuggu og töluðu fyrir sameiningu sveitarfélaganna fjögurra á Austurlandi var þetta:  Að miða að samruna sveitarfélaga en ekki samfélaga – og umfram allt að ,,rústa“ ekki samfélögum.

Undirbúningsvinna við þessar sameiningarkosningar var nánast byltingarkennd miðað við þær botnfrosnu hugmyndir og holtaþokuvæl sem ríkti víðast í sveitum á sameiningartímanum uppúr aldamótunum, og hafa allar götur síðan spillt allri viðleitni til að taka skynsamlega á málum.

Þeir austanmenn komu sér saman um algera hugarfarsbreytingu og eru samtaka um að í nýja sveitarfélaginu ríki raunveruleg valddreifing, ekki bara málamyndasamráð. Í því felst

  1. að komið verði á heimastjórnum í hverju samfélagi,
  2. að samfélög sveitarfélagsins (,,gömlu sveitarfélögin/hrepparnir“) og kjarni þeirra verði varðveitt, sérstaða og samkennd þeirra hljóti fulla viðurkenningu og virðingu
  3. að standa vörð um menningarviðburði á hverjum stað
  4. að varast of mikla stýringu eða áhrif frá stærsta sveitarfélaginu
  5. að líta á fjarlægðir sem áskoranir og styrk en ekki veikleika – og bæta samgöngur
  6. að skólar hvers byggðarlags verði efldir en ekki kroppuð úr þeim augun

 

Klakaböndin falla

Frá því að fyrrnefnd þingsályktunartillaga sveitarstjórnaráðherra um eflingu sveitarstjórnarstigsins var kynnt snemma hausts, hefur umræðan þróast og þroskast með jákvæðum hætti að mínu mati. Á landsmælikvarða er það ekki síst að þakka þeim austanvindum sem blésu glaðast um það leyti og tryggðu það hagstæða tíðarfar sem hér verður gert að umtalsefni.

En hvernig skyldu þessir háloftavindar leika um íbúa í Grímsneshreppi hinum forna og nærsveitum, afkomendur Mosfellinga og Haukdæla? Það er alþekkt að austlægar áttir fara jafnan vel með okkur uppsveitamenn, amk. vestan Hvítár. Hvort sem það er vegna þessarar haustblíðu eða annarra hluta, þá hafa þeir atburðir orðið sem benda til þess að klakaböndin séu nú óðum að falla, sem haldið hafa sameiningarumræðunni í herkví. Vísa ég þar einkum til þess sem nýlega var ákveðið um framtíðarskipan skólamála í Bláskógabyggð. Þar var höggvið á síðasta hnútinn í þeirri spennitreyju sem reyrð var um skólahald í tveimur sveitarfélögum í upphafi aldarinnar. Tveimur segi ég, því vissulega gilti það um Grímsnes- og Grafningshrepp líka. Fyrir nokkrum árum var að fullu losað um þau tök, og þar rekur hreppurinn nú fyrirmyndar leik- og grunnskóla á eigin ábyrgð: Kerhólsskóla.  Sama gildir í Bláskógabyggð um skólana á Laugarvatni og í Reykholti.

Hestakaup?

Það er sannfæring mín að hugarfarsbreyting í anda þeirra Austlendinga sé grundvallarforsenda fyrir því að sveitarfélög sameinist farsællega, hvað sem líður lögum um lágmarksíbúafjölda. Sjá menn ekki í hendi sér að ofríkishugsun og alræðishugmyndir er sú hindrun sem stendur í vegi fyrir öllum breytingum, líka eðlilegri framþróun? Það er næsta víst að seint skapast sameiningarhugur og jákvætt andrúmsloft í garð þeirra sem farið hafa fram með þessum hætti – nema víst sé eða óræk teikn á lofti um gjörbreytt hugarfar. Í trausti þess finnst mér nú eðlilegast að horft sé fyrst til næsta nágrennis, nú þegar ljóst er að semja þarf um sameiningu áður en langt um líður,  en bíða þess ella að boðuð lögþvingun nái fram að ganga.

Það er á allra vitorði að víðsýnt er í Grímsnesinu góða og þar er sýn til allra átta – og til er það að óhefðbundnar hugmyndir hljóti hljómgrunn! Samt sem áður finnst mér sem íbúa í þessu góða Grímsnesi, að stórar sameiningar sem viðraðar hafa verið (eða samruni við margfalt stærri sveitarfélög) séu því marki brenndar, sem fram kemur í spaklegum ummælum fyrri tíðar manna: Það er seintekinn gróði að eiga hestakaup við Sumarliða póst.

Það vaxa blóm á þakinu

Umræðan um sameiningu sveitarfélaga að undanförnu hefur að sönnu kallað fram hita og tilfinningar hér um sveitir, og ýmislegt verið rætt og ritað sem ef til vill er betra að liggi í láginni að sinni. En umræðan hefur líka kallað fram jákvæð viðbrögð og ummæli um blómstur blíð, og óskir fylgt um að fái að vaxa og dafna. Undir slík ummæli vil ég taka og gera að mínum, einmitt í von um þá framtíðarsýn að það vaxi blóm á þakinu á öllum samfélögum uppsveitanna og hjartastöðum þeirra, skólunum – hverju nafni sem kunni að nefnast.

Ég minntist hérna áðan á klakabönd. Ef það er rétt metið að þau séu nú sem óðast að hrynja af í hnjúkaþeynum að austan, sé ég fyrir mér að senn verði allur sá klaki að þíðu bergvatni og falli í einum farvegi um endilanga sveit – og birtingarmyndin verði þessi: Bunulækur blár og tær!

Bjarni Þorkelsson
Þóroddsstöðum Grímsnesi

 

Nýjar fréttir