3.9 C
Selfoss

Aðventan gengin í garð á Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Nú er aðventan gengin í garð og jólabókaflóð  og upplestrar í fullum gangi. Við látum okkar ekki eftir liggja og á miðvikudaginn fáum við rjómann af barnabókahöfundum landsins. Gunnar Helgason sem skrifaði fótbolta-bækurnar og bækurnar um skemmtilegu fjölskylduna, mömmu klikk, pabba prófessor, bestu ömmuna og fleiri, hefur nú skrifað bók um rottur, sem hann segir að sé besta bókin sín til þessa og við trúum því. Draumaþjófurinn heitir hún. Sigrún Eldjárn hefur skrifað óteljandi barnabækur og meðal annarra eru bækurnar um Kugg og Málfríið, Sigurfljóð og svo spennusögur frá Skuggaskeri og um safnaheiminn og núna framtíðarsögurnar og Kopareggið var að koma út í þeirri syrpu. Rán Flygerning er myndlistakona að mennt eins og Sigrún og Rán hefur t.a.m. myndskreytt eitthvað af bókum Gunna. Hún gaf hinsvegar núna út bók sem er jafn rík að myndmáli og texta og heitir „Vigdís, bókin um fyrsta konuforsetann“ Þessir snillingar verða allir hjá okkur á miðvikudaginn kl. 16:30 á Bókasafninu á Selfossi og við hlökkum til að sjá krakka og kerlingar og karla og alla þá sem unna góðum bókum fyrir börn.

Við opnuðum jólagluggann okkar 1.desember samkvæmt venju. Einnig erum við búin að taka upp kortin fyrir Amnesty International sem nú er hægt að skrifa undir hjá okkur og jólatréð hefur verið sett upp svo nú er um að gera að finna til jólagjafir fyrir sjóðinn góða.

Fmmtudaginn 5.desember verður skrautskriftarnámskeið hér á safninu á vegum Reykjavík Calligraphy og verður kennt að handteikna jólakort og merkimiða með verkfærum skrautskriftar farið í notkun gulls og silfurs í leturskreytingum. Takmarkaður fjöldi þátttakenda en þið finnið viðburðinn á facebook og getið þar séð verð og nánari útlistun og sent fyrirspurn þar.  „Jólakorta-calligrapy í Bókasafni Árborgar.“

Svo minnum við á að Bókasafnið er staðurinn okkar allra og alltaf velkomið að kíkja inn og setjast og glugga í blöð eða bækur, fá sér kaffisopa og hvíla sig frá amstri dagsins.

Nýjar fréttir