3.9 C
Selfoss

Spútnikbandið frá Þorlákshöfn með glæsilega jólatónleika

Vinsælast

Þegar maður hugsar um lúðrasveit sér maður fyrir sér rigningarblautan búning skreyttan kögri, internationalinn á blasti út í tómið og blankskórnir marséra pollana hvern á fætur öðrum meðan blásarinn blæs lafmóður í rörið með kalda fingur í þeirri von að halda uppi stemningu á degi verkalýðsins. Það er lesandi góður algerlega liðin tíð. Það er búið að afsanna þessa staðalímynd. Spútnikbandið Lúðrasveit Þorlákshafnar sagði henni stríð á hendur og er búið að sigra á þeirri vegferð. Bandið tók flugið með samstarfi sínu við Jónas Sig hér um árið og hefur ekki lent síðan. Við kíktum á æfingu hjá LÞ og tókum þau tali hvað það er að vera í lúðrasveit og hvernig lúðrasveitin mun lifa áfram.

Heillandi viðburðir skipta máli til að halda neistanum

Gríðarlega metnaðarfullt starf er unnið hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar. Sveitin hefur kyngi magnað aðdráttarafl. Lúðrasveitir almennt hafa átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum. Þrátt fyrir það heldur LÞ sínu, og vel það með 35 manns á öllum aldri innanborðs. Það kveður svo rammt að þessu að á hverju fimmtudagskvöldi láta sumir meðlimir sig hafa það að renna yfir Þrengslin á æfingu. Hver er galdurinn? „Það er heilmikil vinna að halda neistanum hjá fólki og halda úti þannig starfi að unga fólkið komi alltaf og það verði þessi endurnýjun sem þarf. Við höfum farið þá leið í því að bjóða krökkum sem eru að klára tíunda bekk og með miðstig í hljóðfæraleik að ganga til liðs við okkur fullorðna fólkið. Svo er það líka hluti af þessu að vera með heillandi viðburði eins og í t.d. í fyrra. Þá vorum við t.d. með Brassrokk þar sem Eyþór Ingi og Árni Baldur úr Skálmöld voru með okkur. Yngra fólkinu finnst gaman að kynnast tónlistarfólkinu. Þetta verður líka svo stórt og spennandi. Svo mikið alvöru. Það viðheldur neistanum hjá sveitinni,“ segir Ágústa Ragnarsdóttir, formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar.

Andinn er frábær. Þess vegna gengur þetta alltaf

Í starfi eins og lúðrasveit myndast ákveðin stemning. Oft er það einmitt hún sem verður til þess að fólk dregst að og vill hvergi annarstaðar vera. Eins og áður kom fram hefur LÞ þetta aðdráttarafl. Við spurðum Ágústu út í það. „Andinn er frábær. Þess vegna gengur þetta alltaf. Ég tek gjarna sem dæmi að ég flyt til Þorlákshafnar með mömmu og pabba þegar ég var 13 ára. Lúðrasveitin var stofnuð nokkru seinna. Um tvítugsaldurinn dusta ég rykið af hljóðfærinu og fer að spila. Svo fer ég í háskóla og verð einmitt þessi félagi sem keyri á æfingar. Svo hætti ég um tíma í sveitinni því ég bjó ekki í Þorlákshöfn í tuttugu ár en hélt alltaf kontakt við fólkið og sveitina. Þetta var fastapunkturinn hér því þetta var svo frábær félagsskapur. Þegar ég flyt svo aftur fyrir 13 árum með mína fjölskyldu þá var það það fyrsta sem ég gerði að fara í sveitina. Félagsskapurinn er svo góður og svo algerlega aldursbilslaus. Það eru krakkar frá 15 ára aldri og upp í 60+ sem eru virkir meðlimir í sveitinni. Það er líka þannig að í svona félagsskap er pláss fyrir alla,“ segir Ágústa.

Uppskeran er það sem fær okkur til að halda áfram

Að minnsta kosti einu sinni á hverju ári eru haldnir risa tónleikar á vegum sveitarinnar. „Það er mismunandi hvar við höggvum niður hverju sinni, en í ár ætlum við að fara í jólatónleikabransann. Um árabil vorum við með nýrárstónleika en við sleppum þeim þetta árið. Það er akkúrat þetta, eins og ég kom inná áðan, sem drífur okkur áfram. Uppskeran hefur verið svo algerlega þess virði og gefur okkur svo mikið. Það lifnar yfir Ágústu þegar hún ræðir um jólatónleikana og hvað liggur þeim að baki. Það er hvergi til sparað. „Þegar að við erum að velja okkur viðfangsefni, eins og jólatónleikana, þá förum við ekki bara beint og kaupum nótur sem eru til. Meira en helmingur af þeim lögum sem við komum til með að spila á jólatónleikunum í ár eru útsett sérstaklega fyrir okkur og söngvarana Guðrúnu Gunnars og Jógvan sem verða með okkur. Tónlistin er þá sérsniðin að þeim röddum sem sveitin hefur upp á að bjóða ásamt því að vera skrifuð fyrir raddsvið söngvaranna. Það kemur beint fram í gæðum tónleikanna þannig að eftir því er tekið. Aðspurð að því hvar hlýða má á herlegheitin segir Ágústa: „Tónleikarnir Jól við hafið verða haldnir laugardaginn 30. nóvember nk. Það er um að gera tryggja sér miða. Þeim fer fækkandi. -gpp

 

Nýjar fréttir