-8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kjör eldri borgara og frítekjuuppbót.

Kjör eldri borgara og frítekjuuppbót.

0
Kjör eldri borgara og frítekjuuppbót.

Kjör eldri borgara eiga margt sameiginlegt með kjörum öryrkja, en í þessari grein fjalla ég um kjör eldri borgara. En þessir hópar eiga það sannarlega skilið að fjallað sé um kjör þeirra og við finnum leiðir til að bæta lífsgæði þeirra og afkomu.

Á ekkert að gera?

Það eru ekki margir dagarnir sem ég er ekki minntur á kjör eldri borgara og hvað betur mætti fara til að bæta afkomu þeirra sem lakast hafa það. Ég ætla ekki að ræða hvað hefur verið gert, eða taka samanburð, sýna súlurit eða annað sem flestir hafa fengið nóg af. Það finnst nefnilega flestum að ekkert hafi verið gert. Það er líka rangt. Flest samtölin hefjast með því að sagt er. „ Á ekkert að gera til að bæta kjör eldri borgara“. Og ég spyr, hvað viltu að verði gert? Nær allir segja, það þarf að hækka frítekjumörkin og engar skerðingar. Bætir það stöðu þeirra eldri borgara sem lökust hafa kjörin. Nei, það gerir það ekki enda ekkert til að nýta frítekjumörkin, hvorki launa,-lífeyris- eða fjármagnstekjur.

Hækkum gólfið.

Ef við ætlum að bæta kjör þeirra 3000 eldri borgara sem lakast hafa kjörin og draga fram lífið á strípuðum bótum þá hækkum við gólfið hjá þeim hópi. Það einfaldlega eykur mismun á milli hópa ef við eingöngu hækkum frítekjumörkin. Það bætir kjör þeirra sem eiga lífeyrissjóð, hafa fjármagnstekjur eða hafa starfsorku og eru á vinnumarkaði. Þeir sem hafa ekkert af þessu sitja einfaldlega alltaf eftir. Er ég þá ekki að segja að allir í þeim hópum sem ég nefndi hafi það svo gott, öðru nær.

Frítekjuuppbót.

Hvernig bætum við þá sem draga fram lífið á strípuðum lífeyrisgreiðslum frá TR. Hvernig hljómar það að sá hópur fái launauppbót, frítekjuuppbót sem nemur upphæð frítekjumarks lífeyrisgreiðslna eða fjármagnstekna, nú 25.000 kr. á mánuði? Mér sýnist að það geti verið sanngirnismál, en frítekjumörk hækka skerðingarmörkin á lífeyri Tryggingastofnunar. Lægst launaði hópurinn héldi þá í við þeirra sem njóta frítekjumarks í stað þess að bilið á milli þeirra aukist. Þessi hugmynd er allavega leið til að hækka þá sem lægstar hafa lífeyrisgreiðslurnar frá TR án þess að þær greiðslur færu upp allan stigann.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.