-4.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég reyni alltaf að para saman barn og bók

Ég reyni alltaf að para saman barn og bók

0
Ég reyni alltaf að para saman barn og bók

segir lestrarhesturinn Árný Leifsdóttir

 

Árný Leifsdóttir býr í Þorlákshöfn ásamt eiginmanni og þremur börnum en er fædd og uppalin á Norðurlandi. Hún hefur starfað á Bæjarbókasafni Ölfuss í sex ár og tók við forstöðu safnsins í lok sumars en í frítímanum er hún að leikstýra hjá Leikfélagi Ölfuss verkinu Kleinumeftir Þórunni Guðmundsdóttur og skrifar auk þess eina ritgerð sem hún gerir ráð fyrir að klára í vor.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa Full Throttle: Stories eftir Joe Hill. Samt er ég ekki að lesa heldur að hlusta. Ég hef lesið allar bækurnar hans og finnst þær flestar góðar. Hornser til dæmis alveg frábær bók.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Yfirnáttúrulegar hryllingssögur og fantasíur. Ég er virkilega veik fyrir svoleiðis bókum þar sem þær varpa ljósi á mannlega náttúru frá öðru sjónarhorni. Mér finnst samt verst hversu lítið hefur verið skrifað á íslensku í þessum anda en blessunarlega er það að breytast. Eins les ég gjarnan bækur ætlaðar börnum og unglingum. Ég vinn náttúrulega á bókasafni og hef alltaf lagt áherslu á að geta parað saman barn og bók. Það er fátt jafn þakklátt og þar að auki er verið að gefa út bækurnar sem ég vildi lesa sem barn en voru þá ekki til á bókasöfnunum.

Ertu alin upp við bóklestur?

Við mamma fórum oft saman á bókasafnið og eins fékk ég alltaf bækur í jólagjöf. Fyrstu árin mín bjuggum við á Siglufirði. Reglulega rölti ég með eldri bróður mínum til að sækja Tarzanblöð sem hann var áskrifandi að. Þegar ég var fimm ára var í einu blaðinu mynd af risakönguló sem ég var skíthrædd við. Þetta vissu bróðir minn og eldri frændur og þeir notuðu myndina óspart til að losna við mig. Einn daginn nappaði ég blaðinu og spurði mömmu, skjálfandi á beinunum, hvað stæði á myndinni. Þann dag kenndi hún mér stafina og upp frá því var ég læs. Ég las allt sem ég náði í og á sjöunda ári uppgötvaði ég þjóðsagnaarfinn og alla tíð síðan hef ég leitað uppi bækur um yfirnáttúrulega atburði. Ég elskaði bækur Astrid Lindgren, Tove Jansson og Ole Lund Kirkegaard þegar ég var barn og bækur þess síðastnefnda hafa svo sannarlega slegið í gegn hjá mínum börnum en ég las mikið fyrir þau. Því miður hefur aðeins eitt af þremur erft áhugan á lestri og merkilegt nokk virðist hann hafa erft minn smekk líka.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Áður las ég allt sem ég komst í og var fljót að því en fyrir nokkrum árum gerði heilsubrestur vart við sig og í kjölfarið tapaði ég athygli við lestur. Hljóðbækur hafa því að mestu tekið við. Kosturinn við þær er að ég get hlustað nánast hvar sem er og því hefur „lesturinn“ bara aukist ef eitthvað er. Ég hef verið með áskrift að Audibleí nokkur ár og Storytelvar himnasending fyrir mig þar sem auðveldara varð að ná í bækur á íslensku. Eins hlusta ég mikið á sögur á hlaðvörpum. Það eina sem ég les á pappír núorðið eru handrit að leikritum og einstöku ljóðabækur.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Joe Hill, Neil Gaiman, Stephen King, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Stefán Mána Claire North, Liz Sower, Shirley Jackson, H.P. Lovecraft, Terry Pratchett, Mikhail Bulgakov, Paul Cornell og svo mætti lengi telja.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já oft en af mismunandi ástæðum þó.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Yfirnáttúrulegan hrylling. Ekki spurning!