3.9 C
Selfoss

Roðagyllum Suðurland: 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Vinsælast

Veistu – að ein af hverjum þremur konum í heiminum upplifir ofbeldi á æviskeiði sínu? Að í fjórum af hverjum fimm nauðgunum þekkir fórnarlambið kvalara sinn? Að 70% fórnarlamba mansals eru konur og stúlkur? Veistu – að ofbeldi gegn konum er yfirhöfuð stærsti áhættuþátturinn varðandi heilsu kvenna, örkumlun, sjúkdóma, já líf og dauða – alvarlegri en áfengi, vímuefni, reykingar og allir aðrir ámóta áhættuþættir? Og það sem er einna hryggilegast er að fæstar leita sér aðstoðar.

Mánudagurinn 25. nóvember næstkomandi er alþjóðadagur gegn kynbundnu ofbeldi, dagurinn sem Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað til að draga fram ofbeldi gegn konum sem alþjóðlegt vandamál sem kemur upp í öllum samfélögum og menningarheimum. Þá hefst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi um heim allan og lýkur því á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10 desember nk.

Þessa daga efna félagasamtök, opinberir aðilar, kvennahreyfingar, mannréttindasamtök og margskonar aðrir hér á landi sem annars staðar til fjölbreyttra aðgerða til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi og hvetja til hertari baráttu gegn því.

Hin alþjóðlega Soroptimistahreyfing er þar engin undantekning og þá heldur ekki sú íslenska. Ein þeirra aðgerða sem er framlag þeirra til sextán daga átaksins er verkefnið Roðagyllum heiminn (Orange the World). Þá ætla soroptimistar að bregða appelsínugulum lit á umhverfi sitt með ýmsum hætti, allt frá því að klæðast appelsínugulu og kveikja á appelsínugulum kertum til þess að lýsa upp byggingar með hinum roðagyllta lit sem tákn um bjarta framtíð án ofbeldis.

Mánudaginn 25. nóvember kl. 16.30 ætla Soroptimistar á Suðurlandi að safnast saman við Sýslumannshúsið að Hörðuvöllum 1 á Selfossi og ganga þaðan appelsínugulu liði eftir Austurveginum að verslunarmiðstöðinni Kjarnanum, ræða saman og vekja athygli á málstaðnum. Þá munu fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi fá erindi frá Soroptimistum með hvatningu um þátttöku í átakinu.

Soroptimistar hvetja alla til að taka þátt í göngunni með þeim, hjálpa til við að roðagylla heiminn og segja nei við kynbundnu ofbeldi.

Nýjar fréttir