-11.4 C
Selfoss

Aðventan á Hendur í höfn

Vinsælast

Nú er fyrsta heila árið á nýjum stað senn á enda og Hendur í höfn fjölskyldan vill koma á framfæri þökkum til ykkar allra sem hafið lagt leið til Þorlákshafnar og átt notalega stund hjá okkur.

Nú er að ganga í garð uppáhaldstími okkar, aðventan, þar sem flest allir leggja sig fram við að búa til notalegar stundir með fólkinu sínu. Við hlökkum mikið til að dekstra við ykkur með jólakræsingum og getum fullyrt að það verður hvergi meira um að vera á Suðurlandinu en hjá okkur þar sem við munum bjóða upp á fjölmarga viðburði á aðventunni. Allar upplýsingar um viðburði má finna á facebook síðunni okkar en til að gefa ykkur smá mynd þá ætlum við hér að nefna nokkra.

Fyrst ber þó að nefna stórtónleika Lúðrasveitar Þorlákshafnar ásamt Jógvan og Guðrúnu Gunnars sem haldnir verða í jólaævintýralandi í íþróttahúsinu 30. nóv. kl. 15. Það er auðvitað tilvalið að byrja á að fá sér jólakræsingar hjá okkur í hádeginu og njóta svo þessa metnaðarfullu tónleika sem Lúðrasveitin okkar býður upp á. Um kvöldið, kl. 23, ætlar hún svo að bjóða í ekta lúðrasveitapartý á Hendur í höfn, það verður ekki leiðinlegt!

Mánudaginn 2. desember verður jólaopnun hjá fyrirtækjum í Þorlákshöfn þar sem ýmislegt verður um að vera. Hjá okkur munu ungt og mjög efnilegt tónlistarfólk koma fram á milli 18-20 auk þess sem rithöfundar lesa úr bókum sínum.

6. des verða tónleikar úr heimabyggð þegar Arna Dögg og Englahjörðin verða með jólalög í kántrý stíl. Föstudaginn 13. des mun jólarósin Margrét Eir halda tónleika og sunnudaginn 15. des syngur Guðrún Árný, ein fremsta söngkona á Íslandi, sín uppáhalds jólalög. Síðast en ekki síst verður kósý jólakvöld með hljómsveitinni Kalí 18. des. en það er sérstaklega skemmtilegt að segja frá því að hljómsveitin Kalí er skipuð 4 einstaklega hæfileikaríkum 15 og 16 ára ungum konum sem munu þarna flytja lög í eigin útsetningum í bland við frumsamið efni.

Frá og með 22. nóvember verður hægt að fá smurbrauðsdásemdir, síldina hennar Dagnýjar og fleiri jólakræsinga auk þess sem kökubarinn verður að sjálfsögðu í jólastíl. Einnig býður Hendur í höfn upp á smáréttarveislur með jólaívafi sem hægt er að panta og fá sent. Allar nánari upplýsingar á hendurihofn@hendurihofn.is

Nýjar fréttir