3.9 C
Selfoss

Loksins rættist draumurinn um veitingastað úti á landi

Vinsælast

Við aðalgötuna í Hveragerði er veitingastaðurinn Matkráin. Það eru veitingamennirnir Jakob Jakobsson og eiginmaður hans Guðmundur Guðmundsson sem standa á bak við staðinn. Jakob og Guðmundur ráku lengi Jómfrúna í Lækjargötu við góðan orðstír. Þeir hafa nú fært sig úr skarkala borgarinnar og opnuðu vinalegt veitingahús við aðalgötuna í Hveragerði. Þegar komið er inn á veitingahús þeirra tekur það þægilega á móti manni en hönnun á útliti veitingastaðarins er alfarið í höndum Guðmundar og Jakobs. Það er kannski best að lýsa því þannig að maður sé örlítið að koma í heimsókn til þeirra, en þeir starfa sjálfir á staðnum og taka á móti gestum af sinni einstöku gestrisni með skandinavískum heimagerðum mat frá grunni.

Draumurinn að opna veitingahús úti á landi

Þeir Jakob og Guðmundur lærðu báðir í Danmörku og fóru út með þann draum að opna veitingastað úti á landi en þau plön fóru þó á bið um sinn. „Við áttum ekki mikinn pening þegar að við komum heim og höfðum ekki efni á því að kaupa okkur bændabýli til þess að gera veitingastað en fengum þetta húsnæði í Reykjavík. Þannig byrjum við með þennan litla, en samt stóra draum um að opna íslenskan/skandinavískan veitingastað á Íslandi og endurvekja það. Svona veitingastaðir, eins og Jómfrúin, voru auðvitað til fyrir stríð en eftir það datt smurbrauðið algerlega úr tísku á Íslandi. Við byggðum svo upp á því að halda fast í danska matarhefð og ekki gefa neitt eftir í því. Það mæltist vel fyrir enda íslendingar margir hverjir menntaðir í Danmörku og tengingin við Dani er sterk,“ segir Jakob. Þegar farsælum rekstri þeirra lauk á Jómfrúnni, sem sonur Jakobs rekur nú, tóku þeir sér gott frí og létu svo drauminn um veitingastað úti á landi rætast í vor.

Veitingabakterían fer ekki svo glatt

Jakob og Guðmundur festu kaup á húsnæðinu sem Matkráin er rekin í, en þar var áður bakarí og sjoppa. Þegar leigjendurnir sögðu upp leigunni þá gátu þeir ekki annað en hellt sér á fullt út í veitingabransann að nýju, en undir öðrum formerkjum. „Þessi draumur um veitingastað úti á landi blundaði alltaf í okkur. Okkur langaði til að opna restaurant þar sem við sjálfir værum svolítið á gólfinu og ekki of mikið umfang og við gerðum allt heima. Við sýrum allt grænmetið okkar sjálfir og reykjum laxinn okkar sjálfir og allt eftir því. Við búum svo hér í Ölfusinu þar sem við erum með matjurtagarð og ræktum kryddjurtir sem við notum í matargerðina hjá okkur,“ segir Jakob og eldmóðurinn og áhuginn leynir sér ekki á augunum á honum. Hér er matbúið af lífi og sál sem maður finnur glöggt á þeim Guðmundi og Jakobi þegar þeir segja frá. Aspurðir hversvegna þeir létu ekki bara gott heita eftir farsæl ár á Jómfrúnni segir Jakob: „Ég er með bakteríu sem ég kalla veitingabakteríu og maður losnar ekki svo glatt við hana.“ „Og við erum ekki orðnir nógu gamlir til að hætta,“  bætir Guðmundur við.

Jólin eru tíminn í Danmörku og á Matkránni

Það fer ekki framhjá neinum sem hefur borðað hjá þeim Jakobi og Guðmundi að þeir eru verðugir fulltrúar danskrar matarhefðar á Íslandi. Hvergi er jafn „hyggelig“ matur og í Danmörku um jólin og blaðamaður stenst ekki að spyrja um hvað framundan sé um jólin. Það er augljóst á viðbrögðunum að þarna fer spennandi tími í hönd hjá þeim hjónum. „Við ætlum auðvitað að bjóða upp á ýislegt en aðalatriðið er svokallaður jólaplatti sem við erum upphafsmenn að hérna á Íslandi. Hann á rætur sínar að rekja djúpt í hefðum í Danskrar matarhefðar. Í ár er hann með fimm réttum. M.a síld, önd, purusteik og ýmiskonar jólameðlæti. Svo er ris a lamande í eftirrétt. Með því höfum við svo snafs sem byggður er á sérstöku ákavíti frá Danmörku sem ætlast er til að maður kryddi til sjálfur. Því hefur Guðmundur legið yfir í dálítinn tíma af einstakri natni og kryddað með jurtum úr garðinum okkar. Það er svo gaman að vera í þeirri aðstöðu að geta gert þetta svona. Að norrænum hefðum drekkum við svo öl og snafs með slíkum kræsingum. Við hefjum máltíðina á síldinni og dreypum svo á brjóstbirtunni. Við njótum svo þessara rétta þar til við heyrum englana syngja eins og danirnir segja“, segja Guðmundur og Jakob.

Aðspurður um söguna á bakvið jólaplattann segir Jakob: „Plattinn er þannig að hann er byggður upp af fimm til sjö réttum. Sagan á bakvið hann er svolítið skemmtileg. Hann varð til í Danmörku á stríðsárunum þegar skömmtunin var sett á. Auðvitað var til fólk á stríðsárunum sem átti peninga, en af því að það var svona pínulítil sósíalísk pæling á þessum tíma var það bara ekki talið eðlilegt að þeir sem áttu peninga gætu farið á veitingastaði og borðað margrétta máltíðir meðan aðrir sultu. Þannig var veitingamönnum bannað að bera fram forrétti, aðalrétti og deserta. Í lögunum var það þannig að eingöngu skyldi bera fram „en talllerken“ eða einn disk. Veitingamenn brugðust þannig við þessu að þeir bjuggu bara til sjö rétta disk. Þannig varð plattinn til upphaflega. Og hann hefur verið notaður síðan við ýmis tækifæri eins og páskaplatti og ekki síst jólaplatti. Fyrst þegar við auglýstum plattann fyrst sögðum við: „Jólaplattinn í ár er ekki frá Bing og Gröndal heldur Jómfrúnni og þannig var þessi saga,“ segir Jakob að lokum.

Nýjar fréttir