-1.6 C
Selfoss

Að líða vel og vera í jafnvægi

Vinsælast

Öllum finnst gott að láta sér líða vel. Þegar manni líður vel gengur yfirleitt allt betur. Við höfum betri stjórn á tilfinningum okkar og líðan og gengur betur í samskiptum við aðra. En hvað getum við gert til að stuðla að því að okkur líði vel og að við séum sem oftast í „vellíðunargírnum“?

  1. Slakaðu á. Gefðu þér tíma til að slaka á að minnsta kosti einu sinni á dag. Farðu í „kósýföt“ þegar þú kemur heim eftir daginn. Leyfðu þér að leggjast aðeins upp í sófa og slaka á undir teppi. Hugleiðsla er einnig góð leið til að róa sig og slaka á. Kveiktu á kertum eða lömpum þegar fer að rökkva.
  2. Hreyfðu þig á hverjum degi. Farðu í ræktina, á æfingu, út að ganga/hlaupa eða í sund.
  3. Borðaðu hollan mat svo heilinn fái nóga næringu. Kíktu á landlaeknir.is/radleggingar til að fá ráðleggingar um mataræði.
  4. Vertu með rútínuna í lagi. Skapaðu þér góðar daglegar venjur svo þér finnist þú rólegri og skipulagðari. Best er að fara að sofa og vakna á nokkurn veginn sama tíma ALLA daga. Annað gott ráð er að gera sig kláran fyrir morgundaginn kvöldinu áður, t.d. finna til nesti, föt til að fara í, leikfimisfötin o.fl. Gott er að búa sér til góða morgunrútínu, rútínu eftir skóla/vinnu og góða kvöldrútínu. Fyrir börn eru góðar rútínur sérstaklega mikilvægar.
  5. Svefn. Fáðu nægan svefn. Dagleg hreyfing hjálpar okkur að sofna á kvöldin. Forðist koffín seinni partinn og á kvöldin. Mælt er með að hafa ekki skjátíma klukkutíma fyrir svefn því það að sitja við skjá kemur í veg fyrir að heilinn verði syfjaður. Athugið að börn og unglingar þurfa meiri svefn en fullorðnir. Það eru góðar ráðleggingar um svefn á https://www.heilsuvera.is/
    efnisflokkar/svefn-og-hvild/

Prófaðu að fara eftir þessu og sjáðu hvort þér takist ekki að vera oftar í „vellíðunargírnum“. Ef mörg eða öll atriðin sem talin eru upp hér að ofan eru í óreglu hjá okkur getur verið gott að byrja rólega að temja sér nýjar venjur. Það er líka gott að hafa í huga að það getur tekið nokkrar vikur að koma nýjum venjum á. Ekki gefast upp því það er miklu eftirsóknarverðara að líða vel heldur en illa og vera einhvern vegin með allt á hornum sér. Ef við sofum ekki nóg eða sofum illa þá eigum við erfiðara með að takast á við verkefni dagsins og það er líklegra að við borðum óhollan mat og nennum ekki að hreyfa okkur. Það er því mikilvægt að fá svefninn í lag til að geta skapað góðar venjur, tamið okkur hollt mataræði og reglulega hreyfingu. Það er gott að hafa í huga að það er mismunandi milli einstaklinga hvað veitir vellíðan, ekki vera að eltast við vellíðan annarra heldur farðu í leiðangur og finndu út hvað stuðlar að þinni vellíðan. Gangi þér vel í að temja þér að vera oftar í „vellíðunargírnum“.

Sandra Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi, forstöðumaður Birtu Starfsendurhæfingar.

 

 

Nýjar fréttir