3.9 C
Selfoss

Grasagrafík í Gallerí Stokk á Stokkseyri

Vinsælast

Listamaðurinn Viktor Pétur Hannesson hefur undanfarin þrjú sumur ferðast um landið í leit af jurtum sem hann nýtir í verk sín. Hann sýnir afrakstur sumarsins í sýningu sem nefnist Umpottun. Í samtali við Viktor segir hann að hann „strauji“ jurtirnar á pappír. Aðferðin byggir á hefðum úr grafík og jurtalitun. Viktor er nýfluttur á Stokkseyri og býr þar milli þess sem hann fer eins og sauðkindin um landið að safna efni í verk sín. „Þegar ég flutti kynntist ég fólkinu á bakvið Gallerí Stokk. Mér fannst svo tilvalið að fá að halda innflutningssýningu,“ segir Viktor og hlær.

Vinnustofan er færanleg og hentar vel

Til þess að geta sinnt list sinni af kostgæfni fjármagnaði Viktor kaup á húsbíl fyrir sig í gegnum hópfjármögnunarkerfi. Húsbíllinn nýtist sem færanleg vinnustofa listamannsins. „Ég fjármagnaði kaupin með því að forselja listaverk sem ég vinn með þessum hætti. Ég ferðast síðan um landið og týni jurtir og vinn úr þeim grafíkverk. Ég strauka litinn og línurnar úr jurtunum á pappír, og nota til þess hitapressu sem ég er með hér úti í bíl. Ég ferðaðist um Vestfirði og það er pláss fyrir mig, strákinn minn og kærustuna,“ segir Viktor.

Sýningin uppgjör á vinnu sumarsins. Straujaður brúðarvöndur meðal verkanna

Aðspurður um sýninguna segir Viktor: „Sýningin er í raun uppgjör á vinnu sumarsins. Þetta eru verk sem ég er búinn að gera á ferðalagi mínu í sumar. Svo er eitt verk hér sem er brúðarvöndur sem ég fékk í brúðkaupi sem ég fór í alla leið til Brighton í Englandi. Ég fékk þar brúðarvöndinn frá brúðhjónunum. Ég tók hann með til landsins og pressaði hann á pappír fyrir framan Sundhöllina í Reykjavík. Þetta var mjög viðkvæmt verkefni því fyrir mér er þetta mikilvægur brúðarvöndur. Bæði er þetta náin frænka kærustunnar minnar og tónlistarkona sem ég lít upp til. Svo er náttúrulega brúðarvöndur dálítið stórt tákn í sameiningu fólks og ástarinnar. Þetta var kannski ekki planið að pressa brúðarvönd í sumar en þetta varð líka mikilvægur partur af ferð sumarsins. Þetta er uppgjör á umbreytingaferli ársins. Ég er eiginlega að umpotta sjálfum mér og færa mig inn í hentugri pott þar sem ég er ekki að dreifa mér í marga potta heldur bara þessi,“ segir Viktor að lokum.

 

Nýjar fréttir