-5 C
Selfoss

Fjölmenni á opnum fundi um nýja hitaveitu á Höfn

Vinsælast

Um hundrað og fjörutíu manns sóttu opinn íbúafund um nýja hitaveitu á Höfn í Hornafirði sem haldinn var í þekkingasetrinu Nýheimum miðvikudaginn 6. nóvember.

Á fundinum sem stjórnað var af Ásgerði K. Gylfadóttur, formanni bæjarráðs, fóru forstjóri og fleiri stjórnendur hjá RARIK yfir áform og stöðu framkvæmda og kynntu hvað fylgir breytingu úr rafkyntri veitu yfir í jarðvarmaveitu. Að því loknu voru almennar umræður og fyrirspurnir um verkefnið en þá sátu stjórnendur RARIK og fulltrúi Orkustofnunar fyrir svörum fundarmanna í pallborði. Þar kom meðal annars fram að öll hús á Höfn og mörg í Nesjum geta tengst nýju hitaveitunni og að það geti stuðlað að auknum lífsgæðum og lægra orkuverði til framtíðar.

Óbreyttur húshitunarkostnaður

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK fór yfir aðdraganda verkefnisins og sagði að forsenda fyrir rekstri rafkyntra fjarvarmaveitna væri nægt framboð á ódýrri ótryggðri raforku. Hann sagði verð á slíkri orku hafa hækkað mikið í samanburði við almenna raforku síðustu ár og ólíklegt væri að ótryggð raforka yrði á boðstólum til framtíðar á því verði sem þyrfti til að keppa við beina rafhitun. Tryggvi Þór sagði að RARIK hefði sett talsverða fjármuni í leit að heitu vatni fyrir veituna á undanförnum árum og nú þegar tekist hefur að tryggja nægjanlegt heitt vatn fyrir hitaveituna á Höfn næmi áætlaður kostnaður við virkjun jarðvarmans, stofnpípu og dreifikerfi um 2,8 milljörðum króna. Að óbreyttu hefði verið þörf á talsverðri hækkun verðskrár veitunnar er með tilkomu jarðhitans er gert ráð fyrir að fyrstu árin haldist kostaður heimila við húshitun óbreyttur frá því sem verið hefur en til lengri framtíðar er talið að hitaveitan geti orðið hagkvæm. Verð til stærri notenda sem ekki hafa notið niðurgreiðslna mun hins vegar lækka nokkuð. Fram kom að framkvæmdin mun hafa óveruleg áhrif á þann hluta bæjarins sem tengdur er núverandi fjarvarmaveitu en hins vegar er um ¼ bæjarins með rafhitun og geta húseigendur sem þar búa valið hvort þeir tengjast hitaveitunni. Því mun fylgja nokkur kostnaður en einnig talsverður ávinningur. Var farið yfir þessa liði á fundinum.

Styrkur til að hætta rafhitun

Helstu kostnaðarliðir húseigenda sem skipta úr rafkyndingu yfir í hitaveitu tengjast breytingu á hita-og lagnakerfum innanhúss og heimæðagjaldi, en á móti kemur að gert er ráð fyrir að íbúar sem eru með rafhitun í dag fá 35% af 12 ára niðurgreiðslum sínum upp í kostnað við breytingar. Tryggvi Ásgrímsson framkvæmdastjóri tæknisviðs RARIK fjallaði um kostnað og styrki til tengingar húsa við nýja hitaveitu. Í máli hans kom fram að lauslega er áætlað að kostnaður við að skipta þilofnahitun út fyrir tengingu við nýju hitaveituna geti legið á bilinu ein til ein og hálf milljón króna fyrir hvert hús en í húsum með svokallaða túbuhitun getur kostnaðurinn verið í kringum 500 þúsund krónur. Við þetta bætist heimæðagjald sem verður um 390 þúsund krónur fyrir lögn í þéttbýli. Á móti er gert ráð fyrir að eingreiðslu styrk frá Orkustofnun, sem miðað við núverandi niðurgreiðslur er 677 þúsund krónur miðað við 30.000 kWst. til rafhitunar. Í máli Kristins Jakobssonar verkefnastjóra RARIK kom fram að gert er ráð fyrir að lagningu stofnæðar frá Hoffelli að Höfn og tengingu við dreifbýli ljúki á næsta ári og stækkun innanbæjarkerfis á Höfn ljúki að mestu um áramót 2020/2021. Að sögn Guðgeirs Guðmundssonar deildarstjóra notendaþjónustu mun RARIK setja upp orkumæla sem mæla notað vatnsmagn í rúmmetrum og kWst. og senda aflestur þráðlaust til móttökustöðvar RARIK.

Nýjar fréttir