4.5 C
Selfoss

Byr undir báða vængi

Vinsælast

Eftir viðburðaríkan og farsælan októbermánuð, sem einkenndist af samhug og samstöðu, sendir Krabbameinsfélag Árnessýslu sínar bestu þakkir til samfélagsins alls.

Dagskrá bleika október var bæði fjölbreytt og skemmtileg þar sem góðu samstarfi var haldið áfram við Selfosskirkju, boðið var upp á fyrirlestur auk þess sem fastir dagskrárliðir héldu sínum sess en þó í bleikri útgáfu. Bleika boðið var haldið í annað sinn og aftur fór mæting og þátttaka langt fram úr okkar björtustu vonum. Um var að ræða fjáröflunarkvöld þar sem happdrættismiðar voru seldir og allur ágóði rann óskertur til félagsins. Mikill fjöldi glæsilegra vinninga var í boði og vill félagið þakka öllum þeim fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum sem lögðu kvöldinu lið á einn eða annan hátt, einstaklega vel fyrir!

Félagið heldur áfram að eflast og setja sér háleit markmið. Einu af þeim markmiðum var náð nú fyrr í nóvember þegar samningur var undirritaður við Krabbameinsfélag Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um ráðgjöf og stuðningsviðtöl til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Með þessum samningi færumst við enn nær því markmiði að fjölþætt og heildstæð þjónusta sé veitt í heimabyggð.

Með þann samhug og samstöðu sem félagið finnur frá samfélaginu leggjum við upp með það markmið að efla karlastarfið innan félagsins. Framundan er bæði hugmynda- og framkvæmdavinna sem snýr að því að hvetja karlmenn til að nýta sér þjónustu félagsins, efla fræðslu og fjölga viðburðum sem höfða sérstaklega til karla. Það verður þó unnið að því markmiði samhliða því öfluga starfi sem nú þegar er innan félagsins og verður hvergi dregið úr þjónustu né fjölbreyttum viðburðum sem höfða til allra.

Fylgjast má með dagskrá og starfsemi félagsins á Facebook-síðu félagsins, hafa samband við starfsmann félagsins alla virka daga milli kl. 13:00 og 16:00 í síma 788 0300 eða senda okkur tölvupóst á arnessysla@krabb.is.*

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.

 

Nýjar fréttir