-6.1 C
Selfoss

Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir með nýja bók

Vinsælast

Steinunn Sigurðardóttir skáld hefur sent frá sér jöklabálk sem nefnist Dimmumót. Hann fjallar um breytta ásýnd jökulsins “hennar”, Vatnajökuls, í ljósi hamfarahlýnunar. Bálkurinn hefur sjálfsæviögulegt ívaf, og einnig heimildaívaf, það heyrast raddir úr sveitunum við Vatnajökul, en návígi íbúanna þar við jökulinn er einstakt í heiminum.

Sérstakur viðburður helgaður nýju bókinni, Dimmumótum, og jöklaskrifum Steinunnar SIgurðardóttur í fyrri bókum verður haldinn í Nýheimum þekkingarsetri á Höfn í Hornafirði 15.nóvember næstkomandi, kl. 16. Þar tala auk Steinunnar Þorvarður Árnason forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við setrið.

Steinunn er eitt af höfuðskáldum okkar. Hún á fimmtíu ára rithöfundarafmæli á þessu ári, og mun vera nánast einsdæmi um feril skrifandi konu á Íslandi. Hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók, Sífellur, þegar hún var nítján ára. Sautján árum síðar kom svo fyrsta skáldsaga hennar, Tímaþjófurinn, sem er ein mest umrædda skáldsaga síðustu áratuga á Íslandi og var sett á svið Þjóðleikhúss 2017 með Nínu Dögg Filippusdóttur í titilhlutverkinu, Öldu Ívarsen.

Steinunn sendir jöfnum höndum frá sér skáldsögur og ljóð, og verk hennar hafa síðasta aldarfjórðung komið út í þýðingum jafnt og þétt, ekki síst í Þýskalandi og Frakklandi.

Steinunn gegnir nú á haustönn starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands, en meðal viðurkenninga sem hún hefur unnið til eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Steinunn lætur íslenst mál til sín taka víðar en á eigin ritvelli og hún fjallaði nýverið í hátíðarfyrirlestri Jónasar Hallgrímssonar um nýyrðasmíð íslenskra ljóðaskálda, um leið og hún gagnrýndi ofnoktun orða, sem hún telur að geti stuðlað að orðafátækt.

Þá hefur Steinunn nú í nokkur ár stjórnað námskeiðum á Heilsustofnun Nlfí í Hveragerði, sem miða að uppbyggingu sálarlífs gegnum skapandi skrif.

Steinunn Sigurðardóttir er sunnlendingur í húð og hár. Hún dvaldist í æsku sinni á sumrin hjá móðurfólki sínu í Eyvík í Grímsnesi, svo og hjá föðurfólki sínu á Seljalandi í Fljótshverfi – en þaðan sér hún jökulinn í nýja ljóðabálknum, Dimmumót.

Hún les úr Dimmumótum á viðburði Listasafns Árnesinga í Hveragerði 2.desember næstkomandi – og þar koma fram fleiri höfundar. Steinunn hefur verið búsett í Þýskalandi og Frakklandi, en hún hefur átt sitt annað heimili á Selfossi síðan 1997 þegar hún og maður hennar, Þorsteinn Hauksson, tónskáld, festu kaup á einbýlishúsi miðsvæðis í bænum.

 

Nýjar fréttir