3.9 C
Selfoss

Random Klausturbúð opnuð á Uppskeru- og þakkarhátíðinni á Kirkjubæjarklaustri

Vinsælast

Það var mikil fögnuður á Kirkjubæjarklaustri þegar spurðist út að það ætti að opna verslun á Uppskeru- og þakkarhátíðinni sem haldin var 7. til 10. nóvember. Nú geta sveitungarnir keypt sér  heykvíslar, kerti, lopa, tommustokka, vinnuföt, stílabækur, penna og fleira. Það eru hjónin, Unnur Blandon og Ragnar Smári Rúnarsson, sem reka verslunina í húsnæði RR tréverks í iðnaðarhverfinu á Kirkjubæjarklaustri, nánar tiltekið við hliðina á lögreglustöðinni.

Uppskeru- og þakkarhátíðin tókst mjög vel. Það var mjög margt á dagskrá í fjóra daga og ótrúlegt hvað fólk var duglegt að mæta. Hátíðin hófst með setningarathöfn í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli en þar kom tónlistarmaðurinn Hera Hjartardóttir og spilaði og söng. Tónleikagestir fögnuðu henni vel og hún ljóstraði upp að þetta væri í síðasta sinn sem hún kæmi fram með mynstrið á andlitinu sem hefur verið hennar einkenni í nokkur ár.

Á föstudeginum var opið hús í Kirkjubæjarskóla og á bókasafninu. Þjóðgarðsverðirnir opnuðu Krakkastíg á Klaustri með nemendum grunnskólans sem fóru svo í bíó í Kirkjuhvoli. Majka okkar, eins og sagt er á Klaustri, kom og opnaði listasýningu í Kirkjubæjarstofu. Svo var bókakynning þar sem  þau Hadda Björk Gísladóttir og Haukur Snorrason kynntu bókina Our land – food and photography. Í bókinni eru mataruppskriftir frá Höddu, réttir sem hún hefur borið fram í Hrífunes guesthouse í nokkur ár, og ljósmyndir Hauks, flestar teknar í Skaftárhreppi. Um kvöldið kom Ásdís Thoroddssen og sýndi kvikmyndina Gósenlandið – matarhefðir á Íslandi. Það er mjög fróðleg mynd um hvernig Íslendingar hafa nýtt sér náttúruna til matar og hvernig fólk verkaði mat. Þar var til dæmis talað um sviðnar og sýrðar lappir, blóðgraut, sýnt frá fólki að sækja þara, fjallað um fjallagrösin og margt fleira sem nú er sjaldséð.

Á laugardeginum var heljarmikið rallý þar sem fólk kepptist við að skoða á mörgun stöðum:  Nýja róbótafjósið í Hraunkoti, Island Bike farm í Mörtungu, gistihúsið á Dalshöfða, fiskeldi Klausturbleikju á Teygingalæk, gistihús á Hvoli, gistingu, nautaeldi og kjúklinga á Kálfafelli og húsbændur á Kálfafellskoti opnuðu heimili sitt og buðu fólki réttakaffi. Rúnturinn endaði í glæsilegum sal Fosshótelsins á Núpum þar sem hótelstjórarnir Hörður og Hanna Dóra buðu öllum upp á að smárétti frá ýmsum löndum. Á hótelinu vinnur fólk af tíu þjóðernum og því nægar hugmyndir að réttum. Menningarmálanefndin bauð upp á tónleika og voru það nemendur úr MÍT sem komu og spiluðu fyrir gesti; jazz, latín og funk. Óvænt viðbót á laugardeginum var svo villibráðarhlaðborð á Hótel Laka þar sem Daníel Hjálmtýsson flutti lög Leonard Cohen.

Dagskrá á sunnudeginum var í Kirkjuhvoli og hófst með því að boðið var upp á rófusúpu frá Maríubakka sem Hótel Klaustur sá um að elda og bera fram. Hermann Ottósson sem var kennari á Klaustri fyrir nokkrum árum kom og færði Skaftárhreppi skemmtilega gjöf;  ljósmyndir sem hann tók á meðan hann var á Klaustri. Ljósmyndirnar voru sýndar á skjá  og upphófst þá mikil keppni í því hver gæti giskað á hver væri hver á myndunum.

Lokaatriði hátíðarinnar voru glæsilegir tónleikar fólksins sem menntar Skaftfellinga í tónlist um þessar mundir. Það var Tríó sands og hrauna en það skipa tónlistarkennararnir þau Teresa sem lék á flygilinn, Zpigniew, lék á fiðlu og Brian Haroldsson sem lék á selló. Teresa og Zpigniew búa á Klaustri og Brian í Vík þannig að það er flengst yfir hraun og sanda þegar á að hittast og æfa saman. Tónverkin sem þau léku voru verk gömlu meistarana, skosk þjóðlög og sígaunatónlist. Það má með sanni segja að þessir tónleikar jafnast á við það sem best gerist, hvar sem er í heiminum.

Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps

Nýjar fréttir