-8.1 C
Selfoss

Mikilvægt að tryggja fjármagn í starfsemi ART á Suðurlandi

Vinsælast

Art er árangursríkt og öflugt úrræði fyrir þá sem eiga við samskipta- og eða hegðunarvanda að stríða. Úrræðið á Suðurlandi er fjölskyldumeðferðarúrræði sem er ætlað að efla félagsfærni, sjálfstjórn og siðferði og um leið styrkja sjálfsmynd barna og tryggja þeim betri framtíð með því að grípa strax inn í. Barnamálaráðherra hefur ekki endurnýjað samning við fjölskylduúrræðið á Suðurlandi og þörfin er knýjandi.

Gagnreynt úrræði foreldrum að kostnaðarlausu

„Það er vert að benda á að úrræðið hefur verið metið af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og niðurstöður sýna ótvírætt að úrræðið skilar tilætluðum árangri. Þetta er jafnframt eina svona úrræðið hér á Suðurlandi. Úrræðið byggir á hópavinnu og jafningjafræðslu þar sem við í samvinnu með fjölskyldunni, skólanum og með barninu leitum lausna sem virka fyrir hverja og eina fjölskyldu“ segja Gunnar Þór Gunnarsson og Katrín Þrastardóttir í samtali við Dagskrána. Aðspurð um hvernig teymið vinnur segja þau: „Við erum í raun stoðnetið sem grípur þegar eitthvað bjátar á. Það gerum við í samstarfi við áður nefnda aðila. Einnig fylgjumst við með í kennslustundum  (mætum í kennslustundir) og gefum ráð þegar þess þarf eða óskað er eftir.“

Mikilvægt að tryggja fjármagn til lengri tíma

Verkefnið hefur verið rekið af Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga að hluta en meginfjármagn kemur frá ríkinu. „Það er samningur um úrræðið til áramóta og við erum uggandi yfir því að hann verði ekki framlengdur. Við viljum hvetja barnamálaráðherra til þess að tryggja að úrræðið verði áfram í heimabyggð. Starfssvæði ART teymisins er frá Hellisheiði í vestri og að Lómagnúpi í austri. Á þessu svæði erum við að aðstoða um og yfir 30 skóla. Grunn- og leikskólar á þessu svæði vita af okkur og leita hiklaust til okkar þegar í harðbakkan slær. Einnig heldur ART –teymið ART réttindanámskeið  fyrir allt  starfsfók leik- og grunnskóla um allt land. Við erum nú að kalla eftir því að fjármagn verði tryggt svo að þjónustan geti haldið óbreytt áfram og börn sem standa höllum fæti og fjölskyldur þeirra geti leitað ráða hjá okkur sér að kostnaðarlausu. Með því að úrræðið sé án endurgjalds erum við að ná til allra sem við þurfum að ná til,“ segja Gunnar og Katrín að lokum.​

Nýjar fréttir