-6.6 C
Selfoss

Döðlu- og ólífupestó og nautnaseggur

Vinsælast

Elsku Karen, takk kærlega fyrir þessa glimrandi áskorun!

Ég nenni alls ekki að eyða of miklum tíma í eldhúsinu og vil helst hafa allt sem einfaldast og fljótlegast, og ekki skemmir fyrir ef uppskriftir innihalda sem fæst hráefni.

Hér koma þrjár ólíkar, einfaldar og fljótlegar uppskriftir:

 

Döðlu- og ólífupestó:

Ein krukka af rauðu pestói

Hálf krukka fetaostur og smá af olíunni líka

Tvö hvítlauksrif, pressuð

1 og 1/2 dl svartar ólífur, gróft saxaðar

1 og 1/2 dl döðlur, smátt saxaðar

1 og 1/2 dl af steinselju, smátt söxuð

1 og 1/2 dl af brotnum kasjúhnetum (eða öðrum hnetum)

 

Aðferð: Öllu hent saman í skál og blandað saman. Hlutföllin alls ekki heilög og hægt að bæta og breyta eftir smekk. Gott að geyma í kæli í smá tíma áður en borið er fram. Voða hentugt í saumaklúbbinn eða afmæli.

 

Nautnaseggur: 

Ég slumpa og dassa mikið þegar ég geri þennan rétt, enda smakkast þetta aldrei eins, en samt alltaf jafn gott. Krakkarnir elska þennan líka.

 

Ýsa/þorskur

1 egg

Mjólk

Hveiti

Karrý

Salt og pipar

Smjör/olía til steikingar

1 peli rjómi/matreiðslurjómi

Sojasósa

Rifinn ostur

 

Fisknum velt upp úr eggi og mjólk og síðan hveitiblöndu (hveiti, karrý, salt og pipar).

Steikt á pönnu upp úr smjöri/olíu (alls ekki hæsta hita) og raðað í eldfast mót.

Mikilvægt að þrífa pönnuna ekki á milli. Því næst er rjómanum ásamt slatta af sojasósu hellt á pönnuna og að lokum er rifinn ostur settur á. Eldað í ofni í 20 mín. Borið fram með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði.

 

Holl próteinrík pönnukaka/pitsabotn: 

Ég er mikið að vinna með þessa pönnuköku, til dæmis eftir æfingar eða sem pitsabotn. Það er hægt að leika sér allskonar með þetta og þá bæta allskonar kryddum við, próteindufti, banana, vanilludropum o.s.frv.

 

100 gr. eggjahvítur

1 egg (má sleppa)

30-40 gr. hafrar

30-40 gr. kotasæla

 

Öllu hrært saman í blandara og steikt á pönnu.

Ef ég nota þetta sem pitsabotn bæti ég kannski smá heilhveiti og pitsakryddi við (steiki fyrst á pönnu, set síðan álegg ofan á og að lokum inn í ofn).

Ef ég nota sem pönnuköku bæti ég t.d. hálfum banana út í og smyr pönnukökuna með súkkulaðismjöri (Choco Hazel with Stevia t.d.) og sker svo hinn helminginn af banana og hef jafnvel jarðarber/bláber með. Stundum set ég líka bara smjör og ost ofan á.

 

Ég ætla að skora á systur mína og nýbakaða móður, Katrínu Rúnarsdóttur. Hún er meira fyrir að nostra við hlutina og eyðir meiri hluta dags í eldhúsinu. Það líður held ég ekki sá dagur sem Katrín sleppir því að töfra eitthvað fram. Hún er sérstaklega að vinna með hinar ýmsu kökur og annað gotterí.

Bestu kveðjur,

Stella Rúnarsdóttir

Nýjar fréttir