-3.2 C
Selfoss

Inflúensubólusetning á meðgöngu

Vinsælast

Á þessum tíma ársins (september til nóvember) er boðið upp á bólusetningu gegn inflúensu á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Bólusetningunni er ætlað að verja fólk gegn hinni árlegu inflúensu sem gengur alla jafna frá nóvember og fram á vor og veldur háum hita, beinverkjum og höfuðverk. Einnig fylgja henni oft slæm eftirköst eins og lungnabólga, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum.

Sóttvarnalæknir mælist því sérstaklega til þess að allir sem eldri eru en 60 ára, börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum og/eða ónæmisbælandi sjúkdómum og barnshafandi konur þiggi bólusetningu.

Ástæða þess að barnshafandi konur eru á meðal þeirra sem eru í áhættuhóp vegna inflúensu er að:

– Barnshafandi konum er hættara við alvarlegum veikindum og eftirköstum ef þær fá inflúensu.

– Óvíst er hvort inflúensusýking eykur hættu á fósturláti en ljóst er að mikill hiti og veikindi hjá verðandi móður leggja aukið álag á fóstrið.

– Ungbarnið nýtur góðs af bólusetningu móðurinnar fyrstu mánuði ævinnar þar sem mótefnin sem myndast við bólusetninguna berast um fylgjuna til barnsins og verja það á sama hátt og móður þess.

Bólusetja má hvenær sem er á meðgöngu óháð meðgöngulengd og þurfa barnshafandi konur ekki að borga bóluefnið en venjulegt komugjald er tekið fyrir heimsóknina.

Barnshafandi konur eru hvattar til að kynna sér fyrirkomulag inflúensubólusetninga á sinni heilsugæslustöð og bóka tíma í bólusetningu hjá hjúkrunarfræðingum stöðvarinnar.

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Dagný Zoega, ljósmóðir á HSU

 

Nýjar fréttir