Ólafur B. Schram hefur verið leiðsögumaður í 25 ár og lent í ýmsum hremmingum og uppákomum á löngum ferli. Í bókinni Höpp og glöpp, sjálfshól og svaðilfarir tekur Ólafur saman skemmtisögur frá ferlinum og óhætt að segja að þar kenni ýmissa grasa.
Hefði líklega átt að vera dauður nokkrum sinnum
„Ég hef líklega komið á flesta ef ekki alla staði á landinu nokkrum sinnum á ferlinum og lent í ýmsum skemmtilegum og stundum miður skemmtilegum uppákomum. Stundum eru þetta hreinar hrakfarasögur og ég hef eflaust átt að vera dauður nokkrum sinnum en alltaf hefur það þó endað vel,“ segir Ólafur. Aðspurður hvort bókin sé ekki skyldulestur fyrir leiðsögumenn segir Ólafur: „Bókin er ekki leiðbeiningabók fyrir leiðsögumenn því að í henni eru að finna minningar og upprifjanir á því sem hefur komið fyrir og er minnistætt. Þetta eru alls 120 smásögur sem allar gerast á Íslandi bæði af innlendum og erlendum samferðamönnum og ég einn að þvælast. Sögurnar er yfirleitt stuttar og því hægt að leggja frá sér bókina eftir hvern kafla eða lesið nokkra í einu.“ Óhætt er að segja að margar sögurnar séu grípandi og haldi manni svo sannarlega við efnið með krassandi lýsingum úr íslenskum raunveruleika.
Á þvælingi um landið í bókarkynningu
Það er venja að fylgja bókum úr hlaði og það hyggst Ólafur gera með því að pakka bókakössum í bílinn og tætast um landið. Þeir, sem hafa áhuga á að kíkja á upplestur og kynningu, geta fundið viðburðina á Facebook undir nafninu Höpp og glöpp, en Ólafur mun kíkja víða við á Suðurlandi. Við grípum niður í spennandi kaflabrot úr bókinni til að gefa lesendum nasasjón af mergjuðum frásagnarstíl Ólafs: „En það fyrsta sem ég sá til Jökulsár var öldurótið í henni. Hún eins og lyfti sér upp af sandinum, iðuköstin voru æðisleg og ógnvekjandi og hraðinn á vatninu ógnvænlegur. Menn segja að það „múgi á ánni“. Ég jafna þessu einna mest við öldurótið neðan við Aldeyjarfoss í Bárðardal. Mér leist því lítið á þennan stað til að komast yfir. Ég varð að finna stað þar sem hún skipti sér upp í ála og eyrar væru á milli, bæði svo ég hefði fast land undir fótum öðru hverju, ræki ekki allt of langt niður strauminn og gæti hugað að hestunum, náð þeim saman og hvílt á milli sundsprettanna. Staða mín var sú, að ég var kominn of langt frá mannabyggð og beit fyrir hestana, gæti ekki snúið til baka, sex daga leið á hestum og varð því að komast yfir ána, með einum eða öðrum hætti, eins og sumir segja í dag. „Eftir um tveggja klukkustunda hægan gang upp með ánni var hún farin að skipta sér og mér þótti æ líklegra að reyna við hana. Nú var klukkan orðin eitt eftir hádegi og ég búinn að missa af besta tækifærinu að komast yfir þennan daginn. Þeirri hugsun sló niður hjá mér að best væri ef til vill að bíða fram á nótt og sjá hvort vatnið sjatnaði eitthvað. Ég var sex dagleiðir frá efsta bæ á Suðurlandi og álíka til norðurs, ekkert var grasið þarna og ég búinn með síðasta stráið sem ég hafði haft með mér. Því kom ekki til mála að bíða þarna eina einustu mínútu, yfir skyldum við. Loks taldi ég álitlegt að leggja í ána. Þegar svona mikill straumur er í ánni mátti gera ráð fyrir að hestarnir og við allir myndum hrekjast niður straum um nokkra vegalengd og því leitaði ég að stað þar sem svo háttaði að eyrar eða sker væru hvert fram af öðru niður straum, en þó alltaf austar en hið síðasta.“