0.6 C
Selfoss

Glimmersokkar

Vinsælast

Haustið er komið og þá er gott að eiga hlýja sokka. Í Hannyrðabúðinni á Selfossi er mikið úrval af sokkagarni í fjölda lita og grófleika. Uppskrift vikunnar er af barnasokkum úr glimmer-sokkagarni sem heldur betur hefur slegið í gegn. Glimmergarnið er ullargarn með sokkastyrkingu og það þolir þvott við 40°c.

Við megum til með að vekja lika athygli á nýju Crazy-trio prjónunum frá Addi. Þrír stuttir hringprjónar eru notaðir í stað sokkaprjóna, það er alger snilld og mjög skemmtilegt að prjóna með þeim. 

Efni: 1dk Salida Glitter, 1dk Hot Socks Uni. Prjónar no 2,5.

Mynstur: Mynstrið hleypur á 8 lykkjum. Prjónið 1 umferð slétta. Í næstu umferð eru prjónaðar: *2  sl, sláið upp á prjóninn, 1 sl, sláið upp á prjóninn, 2 sl, 3 l saman þannig að 2 l eru teknar óprjónaðar af prjóninum saman frá vinstri, næsta l er prjónuð og fyrri tveimur steypt yfir*. Endurtakið * * út umferðina. Endurtakið þessar 2 umferðir.

Skóstærðir: 24-26-28

Uppskrift: Fitjið upp með lit 1  40-48-56 l, tengið í hring og prjónið 6 umferðir garðaprjón(3 garðar). 

Skiptið í lit 2 og prjónið mynstur alls   8-10-10 umferðir. 

Skiptið í lit 1 og prjónið 3 garða en fækkið um leið um 8 lykkjur jafnt yfir fyrstu umferðina (32-40-48 l á prjónunum). 

Skiptið í lit 2 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br, alls 6-6-8 umferðir.

Skiptið í lit 1 og prjónið 3 garða, svo 12-15-18 umferðir slétt prjón.

Þá er komið að hælnum, hann er prjónaður yfir helming lykknanna, fram og til baka. Prjónaðar eru 2 umf til skiptis með hvorum lit. Prjónið allar lykkjur á sléttu umferðinni sléttar, en brugnar til baka þó þannig að fyrstu 2 l og síðustu 2 l eru prjónaðar sléttar. Prjónið alls 16-20-24 umferðir. Haldið áfram með lit 1 og mótið hælinn þannig: Prjónið 11-14-17 l sl, prjónið næstu 2 l saman, snúið við. Takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 6-8-10 l brugnar, prjónið næstu 2 l saman, snúið við. Takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 6-8-10 l sléttar, prjónið næstu 2 l saman, snúið við. Takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 6-8-10 l sléttar, prjónið næstu 2 l saman, snúið við. Haldið þannig áfram þar til 8-10-12 l eru eftir á prjóninum. Þá er farið að tína upp lykkjur meðfram hælkappanum, auðveldast er að taka upp 1 l í hverjum garði og eina til viðbótar bæði efst og neðst á kappanum, alls 10-12-14 l á hvorri hlið. Prjónið áfram í hring og látið prjónaskil vera framan og aftan við ristina (lykkjurnar sem geymdar voru á meðan hæll var prjónaður eru hafðar á sér prjóni). 

Áfram er prjónað slétt prjón en tekið saman um leið þannig að þegar 3 l eru eftir f. framan ristarstykki eru 2 l prjónaðar saman og 1 slétt, prjónið 16-20-24 l yfir ristina, á næsta prjóni er 1 l prjónuð slétt og 2 l saman. Þessi úrtaka er gerð á sama stað í hverri umferð þar til alls eru 32-40-48 l á prjónunum.

Prjónið áfram slétt prjón þar til komnar eru 32-42-52 umferðir frá hæl. Skiptið yfir í lit 2, prjónið eina umferð slétta. Nú hefst úrtaka. Hafið jafnan lykkjufjölda á prjónunum. Prjónið1 l sl 2 l saman, 10-14-18 l sléttar, 2 l saman, 1 slétt.  Á næsta prjóni prjónast 1 l sl 2 l saman, 10-14-18 l sléttar, 2 l saman, 1 slétt. Úrtakan er endurtekin í annarri hverri umferð þar til alls eru 16-20-24 l á prjónunum og svo í hverri umferð þar til 8 l eru eftir á prjónunum. Slítið bandið og dragið í gegnum lykkjurnar. Gangið frá endum.

 

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

 

 

Nýjar fréttir