3.9 C
Selfoss

Veitur auglýsa eftir tilboðum í tvær veitur í Bláskógabyggð

Vinsælast

Veitur munu nú um helgina auglýsa til sölu hitaveitu og vatnsveitu fyrirtækisins í Bláskógabyggð. Þær þjóna einkum sumarhúsum á svæðinu frá jörðum Brekku til Úthlíðar í Biskupstungum. Hvorug veitan er með sérleyfi og á svæðinu eru nokkrar vatns- og hitaveitur í eigu annarra. Veitunum fylgir nýtingarréttur af vatnsbóli og jarðhitaborholu.
Ákveðið var að auglýsa veiturnar, sem eru á meðal smæstu rekstrareininga Veitna, til sölu eftir að aðili með tengsl við byggðina falaðist eftir því að kaupa hitaveituna til frekari þróunar jarðhitanýtingar á svæðinu. Hagræði er að samrekstri veitnanna tveggja og því ákváðu Veitur að auglýsa báðar veiturnar til sölu í einu lagi í opnu og gegnsæju söluferli.
Hitaveitan fær vatn úr borholu í landi Efri Reykja en holan og búnaður hennar er í sameign Veitna og landeiganda. Holan er firnaheit, 140-150°C, og um hríð var við hana lítil aflvél sem vann rafmagn til að knýja dælur hitaveitunnar. Hitaveitu Veitna fylgir hvorttveggja hlutdeild í þeirri gufu og því vatni sem holan gefur.
Vatnsveitan er smærri í sniðum. Hún er tengd vatnsbóli í eigu Bláskógabyggðar. Óhagræði yrði af því yrði önnur veitan seld en Veitur rækju hina áfram. Þess vegna er auglýst eftir kaupendum að báðum veitunum í einu lagi. Frá og með mánudeginum 4. nóvember 2019 geta áhugasamir kaupendur fengið sölugögn hjá Veitum gegn undirritun trúnaðaryfirlýsingar og er tilboðsfrestur til föstudagsins 22. nóvember. Við sölu veitnanna áskilja Veitur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er í þær eða að hafna öllum.

Nýjar fréttir