4.5 C
Selfoss

„Ég tala smá íslensku“

Vinsælast

Hátt í tvö hundruð útlendingar stunda nú íslenskunám hjá Fræðslunetinu um allt Suðurland.

Mikil aðsókn hefur verið að íslenskunámskeiðum hjá Fræðslunetinu á haustönn. Þessa dagana er fyrstu námskeiðunum að ljúka og margir sem útskrifast fara beint á framhaldsnámskeið, sem er mjög æskilegt og eykur líkur á árangri. Á dögunum lauk íslensku 1 í Reykholti þar sem 12 námsmenn voru á 60 stunda námskeiði hjá Öglu Snorradóttur kennara. Á útskriftarkvöldinu kom einn námsmaðurinn, hún Ana Kokalj, með þessa líka fínu köku sem hún hafði bakað og skreytt með þessum orðum: „Ég tala smá íslensku“. Það yljar okkur námskeiðshöldurum um hjartarætur þegar námsmenn sýna með þessum hætti þakklæti sitt en minnir okkur á um leið hvað það er mikilvægt að tala íslensku við alla útlendinga sem eru að læra íslensku. Við sem tölum íslensku erum öll sérfræðingar í henni og getum miðlað svo miklu til þeirra sem vilja læra. Í stað þess að skipta strax yfir í ensku eins og er svo algengt, þá eigum við að aðstoða við íslenskuþjálfunina. Það er bæði skemmtilegt og gefur mikið í samskiptum, og byggir brýr á milli nýju íbúanna og okkar hinna. Á vinnustöðum þar sem bæði vinna útlendingar og Íslendingar gætum við tekið að okkur einn starfsmann, leiðbeint og þjálfað í íslenskunni. Það lærir enginn nýtt tungumál án þjálfunar.

Fræðslunetið heldur íslenskunámskeið um allt Suðurland. Á þessari önn eru haldin námskeið í Þorlákshöfn, á Selfossi, í Reykholti, á Hellu, í Vík og á Höfn. Alls stunda nú yfir 160 útlendingar íslenskunám. Það er eftirtektarverður áhugi fyrir íslensku á Hellu þar sem tæplega 40 manns eru í námi. Þar er kennari Magdalena Prezwlocka. Í síðustu viku lauk 19 manna hópur íslensku 1 á Selfossi. Á því námskeiði voru alls 15 þjóðerni frá ýmsum löndum, m.a. Sýrlendingar sem fluttu nýlega á Selfoss. Það er mikil áskorun fyrir Sýrlendinga að læra íslensku þar sem ritmál þeirra er t.d. gjörólíkt okkar. Þau voru því afar stolt þegar þau útskrifuðust úr íslensku 1 og hafa nú hafið nám í íslensku 2. Kennari þeirra er Jaroslaw Dudziak. Það sama má reyndar segja um alla okkar námsmenn, þeir eru stoltir af árangri sínum og við af þeim. Og þá má ekki gleyma okkar góðu kennurum. Það er mikil áskorun og erfitt  verkefni að kenna stórum hópum útlendinga sem koma víða að, tala mismunandi tungumál og alls ekki allir með sama ritmál og við.

Enn og aftur viljum við hjá Fræðslunetinu hvetja Íslendinga til að tala íslensku við þá sem hana vilja læra. Það er stór þáttur í varðveislu íslenskunnar að nýir íbúar þessa lands læri tungumál samfélagsins. Flestir þeirra sem hafa flutt til Íslands á undanförnum árum eiga ekki ensku að móðurmáli en margir vilja þó læra hana við komuna hingað. Er ekki skynsamlegra að þess í stað yrði lögð meiri áhersla á íslenskuna? Um það ættum við öll að geta sameinast.*

Fyrir hönd Fræðslunetsins símenntunar á Suðurlandi,

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, verkefnastjóri íslenskukennslu.

 

Nýjar fréttir