7.8 C
Selfoss

Viðurkenning, hamingja og ást

Vinsælast

Sunnlendingurinn og bóndinn Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum í Rangárvallasýslu hlaut á dögunum Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðahandritið Edda. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin koma á Suðurlandið en verðlaunin eru veitt hvert ár í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Það lýsir Hörpu ágætlega að þegar undirritaður reyndi að ná af henni tali fyrir þessa grein var hún upptekin við að elta kindur í birkiskógi. Nokkrum klukkustundum síðar koma skilaboð: „Fyrirgefðu, ég gleymdi mér aðeins og ætla að fá mér að borða. Ég heyri svo í þér eftir stutta stund.“

Eðlilegt og mikilvægt að píkuskrækja svolítið

Við byrjum á léttu spjalli um daginn og veginn. Ég eins og margir Sunnlendingar þekki Hörpu ágætlega en annað veifið fæ ég hjá henni veraldarinnar besta kaffisopa austan fjalls á Bókakaffinu þar sem hún stöku sinnum snýst um gesti og gangandi alfróð um það sem fyllir hillumetra Bókakaffisins. Ég ríð á vaðið og spyr hvernig henni varð við að fá verðlaun eins og þessi. Það liggur ekki á svari og það kemur eins og við var að búast; smellið. „Sif Sigmarsdóttir, formaður dómnefndarinnar sagði mér að það væri bæði eðlilegt og mikilvægt að píkuskrækja svolítið við að fá svona verðlaun. Ég tók hana á orðinu. Píkuskrækir og faðmlög eru að mínu skapi. Þetta er svo ofboðslegur heiður og hvatning til að halda áfram á þessari braut,“ segir Harpa og hlær þannig að brosið nær til augnanna. „Dagurinn var svo mikið ævintýri fyrir mig sem manneskju. Ég veit ekki hvað ég á að segja um það“, segir Harpa og hikar örlítið; „… viðurkenning, hamingja og ást,“ segir hún alvarlega.

Þar var hún, fullkomin!

Mynd: Halla Ósk Heiðmarsdóttir.

Það er erfitt að sitja lengi á sér áður en við förum að ræða Eddu, fyrstu ljóðabók Hörpu. Hvernig er sú tilfinning að standa með bók í höndunum sem er sköpunarverk þitt frá grunni? Hún er yndisleg en þetta var ekki eins sterkt og ég var búin að ímynda mér. Kannski er ég ekki nógu efnisleg. Tilfinningin sem ég man mest eftir er þegar ég sá kápuhönnunina í fyrsta skipti. Við Aðalsteinn Svanur vorum búin að kasta milli okkar nokkrum tillögum en engin þeirra var það sem ég hafði hugsað mér. Samt fallegar kápur og ég var alveg að sættast á að velja bara einhverja þeirra. En ákvað svo nývöknuð einn morguninn að senda honum smá hugmyndaknippi, myndir, liti og orð. Ég var svo að koma úr miklum sauðfjárhasar þegar hann sendi mér tölvupóst sem bar titil á borð við „ein tilraun enn áður en ég fer til útlanda“. Þar var hún, fullkomin. Þá vissi ég að þetta myndi verða að veruleika.“

Erfitt að sjá gamla manneskju missa völdin á huga og hönd

Í bókinni sinni fjallar Harpa um lífsferil manneskjunnar á afar áhugaverðan hátt. Bókin er lágstemmd en grefur sig fljótt í huga manns því henni tekst að hrífa mann með í heim sammannlegra tilfinninga. Svo rammt heldur hún í mann að mann langar eiginlega ekkert að leggja hana frá sér. Aðspurð um tilurð bókarinnar segir Harpa: „Ég byrjaði að skrifa þetta haustið sem Edda (eða Erla) systir hennar mömmu fór á spítala og kom ekki aftur heim. Hún var rúmlega 60 árum eldri en ég og mikil vinkona mín. Hún var fastur punktur í minni tilveru eftir að ég fór í framhaldsskóla og fór að heimsækja hana reglulega, sem ég gerði áfram upp allan háskólann. Í rauninni var hún stór þáttur í mínum menntavegi og ein af örfáum sem ég gat rætt um MA ritgerðina mína við og hún hafði alltaf áhuga á því sem ég var að fást við. Það er ofboðslega erfitt að sjá gamla manneskju missa smám saman völdin á huga og hönd. Einhvern veginn allt of sárt til að höndla það svo ég fór þá leið að skrifa ljóð, sem ég geri gjarnan þegar ég þarf að ná utan um eitthvað. Fljótlega rann upp fyrir mér að ég var með fullkomna líkingu fyrir framan mig. Bróðurdóttir mín, Kolbrá Edda, sem var þarna á fyrsta árinu og að stíga sín fyrstu skref meðan Edda var að stíga þau síðustu. Þegar Edda frænka dó svo um vorið kom auðvitað allt annar vinkill, og ég fór að skrifa út í sorgarferlið líka. Þessar hliðstæður æskunnar og ellinnar eru einhvern veginn það stærsta í lífinu, en við sem erum á milli ýtum því oft út á jaðarinn. Mig langaði að draga þær inn á miðjuna, og spegla þær i lífinu.“ Meðan ég dreypti á kaffinu og hlýddi á þessa frásögn kom svo sterkt til manns þessi sama reynsla sem við öll höfum. Ég spyr svo hvort eigin reynsluheimur Hörpu hafi haft mikil áhrif við gerð bókarinnar segir Harpa: „Mjög mikil áhrif. Ég skrifa alveg endalaust um náttúruna og mikið af hugmyndum kvikna þar. Ég aftengist einhvernvegin og hætti að geta skapað ef ég er lengi að heiman. Hvað þessa bók varðar hefur þessi skortur á kynslóðabili haft rosalega mikil áhrif. Ég ólst upp með mörgum kynslóðum á sama heimili sem var áskorun en líka áhrifaríkt. Við bræðurnir fórum ekki í leikskóla, ekki frekar en gamla fólkið fór á elliheimili. Það unnu síðan allir saman að öllu og við vorum svo mikil heild einhvernvegin. Það var lærdómsríkt.“

Ljóð eru tilfinningar – fullkomin biðstofulesning

Talið berst að ljóðum og ljóðagerð almennt í íslensku samfélagi og hvort hennar tilfinning sé að ljóð séu að sækja á. Við erum sífellt að neyta styttri texta og hvort ljóðið komi þar sterkt inn. „Það er rosalega mikil ljóðagróska, fylgist þið bara með flóðinu. Við erum með sleggjur og ungskáld og allt þar á milli – sem er frábært. Ég er sjálf alin upp við hefðbundna ljóðagerð sem ég er enn að vonast til að þroskast upp í. Og ég rekst svo oft á fólk sem segist ekki lesa ljóð og ekki skilja þau. Það er bull, því ljóð eru tilfinningar og við höfum öll tilfinningar. Svo eru þau stutt, eins og Pétur Már vinur minn benti á í Dagskránni um daginn – fullkomin biðstofulesning! Við erum alltaf að lesa texta og einmitt, stutta texta, tvít og stöðuuppfærslur og myndatexta á miðlunum. Ljóð falla fullkomlega að þessu formi. Svo er líka æfing að leita að ljóðum í nytjatextum. Þau leynast svo óskaplega víða.“ Við látum þetta verða lokaorðin, óskum Hörpu til hamingju með nýja bók og glæsileg verðlaun.

 

Nýjar fréttir