0.6 C
Selfoss

Lífsgæðin meiri hér en í höfuðborginni

Vinsælast

Elín María Halldórsdóttir er menntuð í grafískri hönnun og myndskreytingu. Hún hefur stofnað lítið fyrirtæki sem heitir Komma strik og er staðsett í Fjölheimum á Selfossi. Elín og fjölskylda fluttu á Selfoss í leit af góðu samfélagi með möguleika á spennandi tækifærum.

Leituðum uppi gott og jákvætt samfélag

Eftir tólf ára veru í Svíþjóð fannst Elínu kominn tími til að breyta til. Í kjölfarið tóku þau hjónin ákvörðun um að flytja heim til Íslands og Selfoss varð fyrir valinu. „Ákvörðunin um að flytja á Selfoss er tekin á þeim grunni að okkur leið eins og lífsgæðin væru meiri hér en í höfuðborginni. Hér sleppum við við það að sitja í umferðarteppu til og frá vinnu, börnin eru frjáls og geta sótt sín áhugamál sjálf og húsnæði er á viðráðanlegra verði. Við ákváðum að slá til og sjáum alls ekki eftir því,“ segir Elín.

Lét drauminn verða að veruleika

Elín byrjaði á að vinna í Reykjavík og aka á milli eins og fjöldi sunnlendinga. „Ég fékk svo vinnu hjá SET í eitt ár og hætti að keyra á milli. Þegar því lauk langaði mig til þess að láta minn gamla draum um að starfa sjálfstætt verða að veruleika. Ég er búin að vera í bransanum í 10 ár og finnst ég komin með þau verkfæri sem ég þarf til að vinna sjálfstætt, þó ég sé að sjálfsögðu alltaf að bæta við mig þekkingu.“ Fyrirtæki Elínar, Komma strik, stofnsetti hún í janúar á þessu ári. Aðspurð um það hvernig sé að reka lítið fyrirtæki á Selfossi segir Elín: „Það er í  sjálfu sér lítið mál því það er þar sem ég er hverju sinni, starfið er þess eðlis. Ég er svo auðvitað færanleg, en ég vil gjarna hitta viðskiptavini sem ég vinn fyrir til að fá nákvæma tilfinningu fyrir því sem ég er að gera. Þetta býður upp á sveigjanleika sem ég kann að meta.“

Langar til að styðja við fyrirtæki í sókn á Suðurlandi

Elín sérhæfir sig í að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum með markaðsefni, útlit út á við og koma þeirra skilaboðum á framfæri. „Ég hjálpa fyrirtækjum að koma sér af stað í þessum málum, lógó, útlit, vefsíður og fleira ásamt ráðgjöf. Það eru svo ekki margir sem eru í því hér á Suðurlandi, einhverjir auðvitað en ekki margir. Ég veðjaði dálítið á það að hér væri tækifæri fyrir mig að koma að þeirri uppbyggingu sem á sér stað, hvort sem er á Selfossi eða víðar, og aðstoða fyrirtæki sem þurfa að koma skilaboðum á framfæri. Þetta kannski helst í hendur við það að mér og okkur líður afskaplega vel hér og mig langar að hjálpa til við að byggja upp þjónustu á svæðinu sem er í mikilli sókn“, segir Elín að lokum.

Nýjar fréttir