1.7 C
Selfoss

Afmælistónleikar í Tré og list

Vinsælast

Í glæsilegri orgelstofu gallerísins Tré og list í Flóahreppi fóru fram 75 ára afmælistónleikar sr. Gunnars Björnssonar. Tónleikarnir voru á afmælisdegi Gunnars, þriðjudaginn 15. október sl. Þar lék Gunnar ýmis klassísk verk á celló við undirleik Hauks Guðlaugssonar fyrrverandi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Agnes Löve. Tónleikarnir þóttu heppnast með ágætum. Agnesi Löve þekkja Rangæingar vel en hún var stundakennari við Tónlistarskóla Rangæinga 1988-1992 og skólastjóri við sama skóla 1992-99.

Haukur leikur enn af fingrum fram

Haukur Guðlaugsson er sunnlendingur í húð og hár en hann er sonur Guðlaugs Pálssonar eða Lauga í Laugabúð á Eyrarbakka. Það virðist ganga í ættir að vera ern og hress langt fram eftir aldri en eins og kunnugt er rak Guðlaugur verslun sína í 76 ár, frá desember 1917 fram í desember 1993, þar til hann lést 98 ára að aldri.  Haukur lék undir á fyrri hluta tónleikanna og mat þeirra sem á hlýddu að hann hefði engu gleymt. Haukur hefur víða komið við í tónlistinni á löngum ferli en hann var söngmálastjóri þjóðkirkjunnar um árabil og fyrrverandi skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

 

 

Nýjar fréttir