1.7 C
Selfoss

Garðyrkjunám í uppnámi

Vinsælast

Í Dagskránni 9. október sl. og Bændablaðinu 10. október sl. birti rektor Landbúnaðarháskóla Íslands greinar um nýja stefnu LbhÍ, sem samþykkt var í júní síðastliðnum.  Í greinum þessum er rektor tíðrætt um hve mikil sátt og ánægja sé með þessa nýju stefnu.  Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Þessi stefna var mótuð án nokkurs samráðs við atvinnulíf garðyrkjunnar, helstu hagsmunaaðila garðyrkjunámsins og er framganga rektors gagnvart þeim, sem láta sér hag garðyrkjunáms á Íslandi varða, algjörlega ólíðandi.

Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi, rétt ofan við Hveragerði þekkja flestir landsmenn.  Hann fagnaði 80 ára starfsafmæli á þessu ári.  Þar hefur farið fram öflugt garðyrkjunám, sem hefur verið grundvöllur að þeirri fjölbreyttu og öflugu garðyrkju, sem við búum að í dag á Íslandi.  Löng hefð er fyrir nánu samstarfi skólans við atvinnulífið en nú virðist því miður stefna í breytingu þar á.

Námið er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, sem felur í sér að nemendum gefst tækifæri til að afla sér verklegrar færni og þekkingu á mismunandi starfsvettvangi sem tengist þeirra námi.

Sumardagurinn fyrsti hefur alltaf verið haldinn hátíðlegur á Reykjum.  Þúsundir landsmanna heimsækja skólann þann dag þar sem nemendur kynna nám sitt og atvinnulífið störf í faginu.  Ráðamenn þjóðarinnar, ráðherrar, alþingismenn og forsetar hafa þá heimsótt skólann og mært þá starfsemi sem þar fer fram. Garðyrkjuskólinn hefur því notið mikillar velvildar í samfélaginu.

Fyrir 15 árum var Garðyrkjuskólinn á Reykjum sameinaður inn í LbhÍ.  Ekki var sátt innan garðyrkjunnar um þá aðgerð.  Allar götur síðan hefur skólastarfsemi á Reykjum átt undir högg að sækja og ítrekað komið fram hugmyndir hjá stjórnendum skólans að leggja niður skólahald að Reykjum í því formi sem það er nú.  Eðlilegu viðhaldi bygginga hefur verið ábótavant, þar til fyrir um tveimur árum þegar þrýstingur frá garðyrkjubænum og öðrum velunnurum garðyrkjunámsins varð til þess að stjórnvöld lögðu fram fjármagn til endurbóta á húsnæði skólans.  Starfsfólk skólans og kennarar hafa sýnt að hægt er að halda uppi öflugu og metnaðarfullu skólastarfi, þrátt fyrir mótlæti og erfið húsnæðismál.

Núverandi rektor hefur lagt fram og fengið samþykkt nýtt skipurif þar sem ákveðið hefur verið að dreifa garðyrkjunáminu á ýmsar deildir innan háskólans, ef þær kæra sig um að taka við því. Jafnframt hefur rektor unnið að breytingum á lagalegri stöðu garðyrkjunámsins, úr starfsmenntanámi í aðfaranám háskólanáms.  Skrúðgarðyrkjunámið sem er löggilt iðngrein, er í mikilli tilvistarkreppu ef þetta verður að veruleika. Fagaðilar innan garðyrkjunnar og aðrir velunnarar skólans hafa barist gegn þessum breytingum, í ljósi mikilvægis öflugs starfsmenntanáms fyrir atvinnulíf garðyrkjunnar. Þessi áform rektors kollvarpa garðyrkjunámi á Íslandi eins og það er í dag.

Margítrekuðum varnaðarorðum hagsmunaðila og kröfum þeirra um að fá að koma að ákvarðanatöku varðandi garðyrkjunámið, hefur ekki verið sinnt.  Framganga rektors hefur valdið trúnaðarbresti milli LbhÍ og garðyrkjunnar í landinu.

Ef fer sem horfir, sjá velunnarar skólans og fagaðilar ekki annan kost en að vinna að því að Garðyrkjuskólinn að Reykjum losi sig úr faðmlagi LbhÍ og verði aftur sjálfstæður skóli.

Vernharður Gunnarssson,

Formaður Félags garðplöntuframleiðanda

Nýjar fréttir