-1.6 C
Selfoss

Alþjóðaflugvöllur í Árborg sleginn af borðinu

Vinsælast

Dagskráin sendi inn fyrirspurn til Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Árborgar varðandi hugmyndir um flugvöll í Árborg. Í svari frá bæjarstjóranum kemur fram að:

„Miðvikudaginn 16. október var haldinn fundur starfshóps um aðalskipulag Árborgar 2020-2040 með bæjarfulltrúum og markaði hann upphafspunkt í aðalskipulagsvinnunni. Um var að ræða þankahríð og almennt spjall, undir stjórn starfsmanna Eflu sem hreppti vinnu við aðalskipulagið að undangengnu útboði. Á fundinum var farið yfir fjölmörg mál sem snert geta aðalskipulagið og þróun sveitarfélagsins. Rætt var um sýn bæjarfulltrúa á framtíðina og hvar áherslur ættu að liggja í vinnslu aðalskipulagsins. Á þessum grunni munu starfshópurinn, Efla og skipulags- og byggingarfulltrúi vinna skipulagslýsingu í umboði bæjarstjórnar, en skipulagslýsingu er ætlað að setja rammann fyrir aðalskipulagsvinnuna. Skipulagslýsing ætti að verða tilbúin til auglýsingar úr bæjarstjórn í lok janúar á næsta ári, en sjálf aðalskipulagsvinnan mun að líkindum standa til ársloka 2021.

Það kom berlega í ljós við umræður á fundinum að það er ekki vilji bæjarfulltrúa að setja alþjóðaflugvöll á dagskrá sem hluta af aðalskipulagsvinnunni og að flugvöllurinn sé ekki hluti af framtíðarsýn fyrir það svæði sem Sveitarfélagið Árborg nær yfir í dag.

Eftirfarandi ástæður má tína til sem fram komu í umræðunni:

  • Flugvöllurinn mun takmarka möguleika til þróunar Selfoss til suðurs
  • Flugvöllurinn mun takmarka möguleika til legu þjóðvegar um Flóann sunnan Selfoss, en talið er að sá vegur muni þurfa að bera mikla umferð þungaflutninga sem ekki er þolandi að liggi í gegnum íbúabyggð.
  • Flugvöllurinn mun koma í veg fyrir að hægt sé að tengja Stokkseyri og Eyrarbakka saman með íbúabyggð þar á milli.
  • Flugvöllurinn mun takmarka þróun íbúabyggðar á Stokkseyri til norðurs
  • Líklegt þykir að skipulagsvinna og undirbúningur vegna flugvallarins myndi valda miklu ósætti meðal íbúa í Árborg jafnvel þó hann fengi brautargengi í íbúakosningu, en ekki þykir forsvaranlegt að skipulagsvinna vegna flugvallar væri hafin nema samþykki íbúa lægi fyrir.

Ofangreint leiðir til þess að samhljómur er í bæjarstjórn um að taka flugvöllinn ekki á dagskrá. Þessi afstaða varð ekki ljós fyrr en á miðvikudaginn, þegar málið var rætt til hlítar.

Forsvarsmenn Þróunarfélags um flugvöll í Árborg voru upplýstir um þessa stöðu mála á síðasta laugardag, en þeir hafa lagt nokkra vinnu í undirbúning og jarðvegsrannsóknir. Þrátt fyrir ofangreinda niðurstöðu bæjarfulltrúa er hugmyndin áhugaverð út frá viðskiptalegum sjónarmiðum, nálægðin við ferðamannaperlur á Suðurlandi og vaxandi útflutningshöfn í Þorlákshöfn renna t.d. undir hana sterkum stoðum. Það á svo eftir að koma í ljós hvort forsvarsmenn hugmyndarinnar muni í framhaldinu skoða staðsetningar utan Árborgar.“

Nýjar fréttir