2.8 C
Selfoss

Árangursríkar framkvæmdir í Friðlandi að Fjallabaki

Vinsælast

Frá árinu 2016 hefur Umhverfisstofnun fengið verktaka til að vinna að viðhaldi og uppbyggingu göngustíga í Landmannalaugum með það að markmiði að vernda svæðið og bæta upplifun og aðgengi fyrir gesti svæðisins. Um er að ræða upphaf gönguleiðarinnar um Laugaveginn sem liggur um Laugahraun og upp að Brennisteinsöldu. Þessi hluti gönguleiðarinnar er mjög fjölfarinn yfir sumartímann og því nauðsynlegt að stýra umferð fólks með góðum göngustíg, girðingum og upplýsingaskiltum.

Ein mesta vinnan liggur í gerð steinþrepa sem verktakafyrirtækið Stokkar og Steinar sér um að hanna og framkvæma ásamt öðrum framkvæmdum við göngustíginn. Einnig hefur mikil vinna farið í að afmá villustíga, þ.e. slóða sem hafa myndast út frá megin göngustíg. Búið er loka þeim öllum og græða upp sárin sem eru sýnileg frá núverandi göngustíg.

Með þessari framkvæmd hefur náðst mikill árangur í verndun gróðurs og jarðminja á svæðinu. Hverasvæði sem liggja næst göngustígnum hafa verið girt af bæði til að vernda viðkvæm hverahrúður og af öryggisástæðum.

Á næstu árum verður haldið áfram viðhaldi og uppbyggingu göngustíga í og við Landmannalaugar og m.a. stefnt á að bæta leiðina í gegnum Grænagil með aukinni stýringu. Ekki verður farið í eins viðamiklar framkvæmdir á þeirri leið, en allar framkvæmdir miðast við að bæta verndun á svæðinu, öryggi og upplifun gesta og að öll uppbygging falli vel að landslaginu.

Nýjar fréttir