2.3 C
Selfoss

Opinn markaður á októberfundi hjá Kvenfélagi Selfoss

Vinsælast

Vetrarstarf  Kvenfélags Selfoss er að fara af stað af fullum krafti. Konur hafa þegar hist tvö kvöld í Selinu á hinum vinsælu spjall- og handavinnukvöldum, sem haldin eru annan hvern þriðjudag, nema þá daga sem félagsfundir eru, sem er annan þriðjudag í mánuði.

Fyrsti félagsfundurinn verður nk. þriðjudag  8. október í Selinu við Engjaveg.

Sú hefð hefur skapast að halda markað á fyrsta fundi félagsins á haustin en nú verður sú nýbreytni að hafa markaðinn á undan félagsfundinum kl. 19:00 og bjóða gestum og gangandi að koma við í Selinu og versla. Þar munu kvenfélagskonur selja ýmislegt svo sem hannyrðir, sultur, hversdagskökur, kryddbrauð og fleira.

Á fundinum verður Björgunarfélagi Árborgar færður ágóði af sölu félagsins í markaðstjaldinu á Sumar á Selfossi. Þá mun formaður Björgunarfélagsins fræða okkur um starfsemina.

Aðalmarkmið félagsins er að stuðla að mennta-, menningar- og mannúðarmálum. Aðal fjáröflun félagsins er útgáfa Dagbókarinnar Jóru, sem nú er í prentun fyrir næsta ár. Ákveðið hefur verið að ágóði af sölu hennar 2020 renni til Krabbameinsfélags Árnessýslu. Ágóði af sölu Jórunnar fyrir yfirstandandi ár rennur til Klúbbsins Stróks, sem liður í forvarnaverkefni á sviði geðheilbrigðismála.

Við hvetjum áhugasama til að leggja leið sína í Selið nk. þriðjudag og næla sér í góðgæti og jafnvel að kynna sér um leið starfsemi félagsins. Við tökum glaðar á móti nýjum félögum og gestum.

Stjórnin.

 

Nýjar fréttir