-4.3 C
Selfoss

Svafstu vel?

Vinsælast

Ef börnin mín eru óhress eða líður illa þá fer ég alltaf að hugsa um hversu marga tíma þau sváfu undanfarna daga. Ég er farin að líkjast mömmunni sem ég las eitt sinn um. Hún hafði það fyrir vana að spyrja börnin sín þriggja spurninga ef þau voru eitthvað ómöguleg og kvartandi.

Hún sagði:

  1. Ertu búin að borða?
  2. Ertu búin að kúka?
  3. Ertu búin að sofa nóg?

Við vitum að þessi þrjú atriði hafa gífurlega mikil áhrif á heilsuna okkar. Matur er bensínið sem við gefum líkamanum okkar og því skiptir gífurlega miklu máli hvernig við nærum hann. Það skiptir máli að losa ristilinn mjög reglulega. Enda er farið að tala um þarmaflóruna okkar sem okkar “annan” heila. En svefninn einn og sér hefur líka gífurlega mikil áhrif. Ef við sofum vel og eigum góða nótt þá líður okkur oft mun betur þegar við vöknum. Svefntruflanir geta aukist með aldrinum. Ástæðurnar geta verið ýmsar t.d áhyggjur, álag, verkir, sjúkdómar, áfengi, aukaverkanir, vaktavinna, lyfjanotkun og það að maður sé með lítil börn sem vakna ört. Við horfum oft á þreytu sem merki um að okkur vanti orku en ekki svefn og notum því einhverskonar örvandi efni til að halda okkur vakandi. Til dæmis kaffi, orkudrykki og sykur. Á meðan örstuttur blundur myndi kannski gera “trikkið”. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem sefur minna en 6 tíma á nóttu á meiri hættu á að

  • Fá sýkingar
  • Glíma við ofþyngd
  • Fá sykursýki
  • Fá Krabbamein
  • Fá gigt
  • Að upplifa ójafnvægi í skapi.

Mig langar til þess að hvetja þig til þess að skoða og meta hversu mikinn svefn þú þarft á að halda til þess að þér líði vel. Hversu marga tíma af svefni þarftu til þess að vakna hress og með góða athygli? Hjálpar það þér að fara út fyrri hluta dags í dagsbirtuna? Talið er að þetta hækki gildi melatóníns í líkamanum og geri það að verkum að við sofum betur.

  • Sefur þú betur ef þú sleppir eða minnkar kaffi og áfengis drykkju?
  • Sefur þú betur ef þú forðast birtuna sem kemur frá skjám á kvöldin?
  • Sefur þú betur ef þú skapar rólegt umhverfi? Kveikir á kertum, hlustar á rólega tónlist?

Mér líður best ef ég fæ 7-8 tíma svefn. Þá vakna ég tilbúin í daginn og þarf ekki á vekjaraklukku að halda. Fyrir nokkrum árum þá heyrði ég það snilldarráð að betra væri fyrir líkaman okkar að sofa út réttu megin við sólahringinn. Það þýðir það að ef þú t.d vilt fá 8 tíma svefn þá það er gott að fara að sofa kl. 10 og vakna kl. 6 frekar en að fara að sofa kl. 12 og vakna kl. 8. Maður vaknar ferskari þar sem talið er að maður nái dýpsta svefninum frá 22:00-02:00 á nóttunni. Svefn er eins og sjampó fyrir heilann! Á meðan svið sofum þá þvær líkaminn heilann og losar sig við eiturefni. Góður svefn gerir lífið betra. Það að huga að bættum svefni gerir það að verkum að okkur getur liðið betur andlega og líkamlega. Ef þú vilt fá fleiri ráð sem bæta heilsuna þína þá getur þú farið inn á heimasíðuna mína www.einfaldaralif.is og nálgast þar .pdf skjal sem inniheldur sjö skref í átt að betri líðan.

Sofðu vel, Gunna Stella.

Nýjar fréttir