Víkurskóli tekur þátt í lýðheilsuverkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst þann 4. september og því lýkur 2. október. Víkurskóli er heilsueflandi skóli og því fellur þetta verkefni einstaklega vel að því markmiði. Verkefnið er samstarfsverkefni margra; Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands, Embættis landlæknis, Mennta-og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Landsbjargar og Heimilis og skóla. Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til að stunda virkan og öruggan ferðamáta á leið í skólann. Jaframt að hvetja nemendur til að nýta nærumhverfið til hreyfingar og vekja um leið áhuga þeirra á umhverfismálum og gönguvænu umhverfi.
Drjúgur hluti nemenda Víkurskóla er í skólaakstri og hafa þeir því ekki tækifæri til að ganga eða hjóla í skólann. Til að koma til móts við það hefur útivera og gönguferðir um nærumhverfi skólans verið partur af skólastarfi haustsins. Á fyrsta degi verkefnisins fór allur skólinn í hressilegan göngutúr í Víkurfjöru og notaði hópurinn tækifærið í leiðinni og plokkaði rusl á gönguleiðinni. Þá fóru nemendur í frábæra berjaferð og fjallgöngu. Umsjónarkennarar hafa skipulagt 15 mínútna hreyfistundir utandyra þrisvar í viku. Lögreglan kom í heimsókn og fræddi nemendur um hvað þarf að hafa í huga til þess að vera sem öruggastur á leið í og úr skóla. Þá hlupu allir nemendur skólans Ólympíuhlaupið þar sem hægt var að velja á milli þriggja vegalengda. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og hlupu rúmlega 5 kílómetra hver. Í tilefni af evrópsku hreyfivikunni fengum við góða gesti úr landsliði Krikketsambands Íslands til þess að kynna fyrir krökkunum krikket. Það var afar skemmtileg heimsókn og krakkarnir lærðu margt um þessa íþrótt og fengu leiðsögn um hvernig hún er spiluð. Það má því segja að nemendur Víkurskóla hafi staðið sig með prýði í fjölbreyttum verkefnum tengdum verkefninu Göngum í skólann.