-6.6 C
Selfoss

Árborg – ímynd og átök

Vinsælast

Eins og flestum íbúum í Árborg er kunnugt er nú hafin ímyndarherferð með þátttöku sveitarfélagsins. Það eru fyrirtæki á Selfossi sem eiga frumkvæði að þessu verkefni og hafa fengið Árborg til liðs við sig. Fyrsti kafli herferðarinnar beinist að Selfossi, en í framhaldinu verður athyglinni einnig beint að öðrum hlutum Árborgar. Mikil umræða hefur þegar skapast og almenn ánægja er með það efni sem er til birtingar, skiptar skoðanir er þó um hvort þarna sé rétt forgangsröðun. Það er jákvætt að ímyndarverkefnið fær góða kynningu og vekur umtal – samræður eru af hinu góða fyrir lifandi samfélag.

Að vel hugsuðu máli

Bæjaryfirvöld taka þátt í þessari vegferð að vel hugsuðu máli, þó svo að stóra myndin í þeim ákvörðunum blasi kannski ekki við öllum íbúum við fyrstu sýn.

Fyrsta markmið ímyndarherferðarinnar sem nú hefur verið hleypt af stokkunum var að kynna Selfoss og öll hans gæði fyrir landsmönnum, í því skyni að fjölga hér gestum og auka atvinnutækifæri, enda er verkefnið tilkomið að frumkvæði fyrirtækja á Selfossi.

Aðkoma Sveitarfélagsins Árborgar að málinu útvíkkar hinsvegar áherslurnar. Bæjaryfirvöld settu sem skilyrði fyrir þátttöku sinni að auk kynningarinnar á Selfossi yrði jafnframt kynning á ímynd Árborgar og allra annarra byggða sveitarfélagsins, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Sandvíkurhrepps, enda augljóst bæjaryfirvöldum að tækifærin eru um allt sveitarfélagið og ekki síst niður á Strönd. Nafn Árborgar sem sameiningartákns fyrir byggðir sveitarfélagsins er einnig ákaflega mikilvægt og því þarf að flagga í þessari vegferð, þannig að enginn velkist í vafa um hvað Árborg er og hvað Árborg stendur fyrir.

Það skiptir máli að við stöndum öll saman sem eitt samfélag. Það skiptir máli að við séum okkar eigin talsmenn. Það skiptir líka máli að hlustað sé á alla.

Ungir foreldrar eru mikilvægir

Athugasemdir um að Árborg eigi að einbeita sér að leikskólaplássum fremur en ímyndarherferð eru skiljanlegar og eðlilegt að íbúar setji þessa þjónustu sveitarfélagsins sem mikilvægasta verkefnið. Ekkert er íbúum mikilvægara en góð þjónusta og þar leggja þeir höfuðáherslu á þjónustu sem snýr að börnum, fjölskyldum og velferð. Allt annað kemur í annað sæti.

Bæjarstjórn hefur sömu áherslur og íbúar hvað varðar leikskólamál og nú er öllum ráðum beitt til að þessi þjónusta verði í samræmi við kröfur ungra foreldra í dag. Á meðan unnið er hörðum höndum að byggingu nýs leikskóla í Engjalandi, sem hafist verður handa við að byggja í vetur, hefur Árborg fest kaup á þremur lausum stofum til fjölga leikskólarýmum í sveitarfélaginu. Þetta verkefni er númer eitt og enginn afsláttur gefinn á því.

Sofið á verðinum

Því miður sváfu menn á verðinum þegar hin mikla fjölgun hófst í Árborg árið 2017. Sveitarfélagið og innviðir þess var vanbúið og of langan tíma tók að bregðast við. Árin 2017, 2018 og 2019 hefur fjölgunin svo verið um 6% árlega og safnast þegar saman kemur. Afleiðingin er aukning upp á um 20% á þremur árum. Þrátt fyrir að seint hafi verið brugðist við þá er engin ástæða til að draga lappirnar frekar, heldur þarf að taka vel þessari íbúafjölgun og byggja upp þjónustu sem samræmist kröfum dagsins.

Núverandi bæjarstjórn hefur aðeins haft rúmt ár til að koma skikk á hlutina og hefur ekki setið auðum höndum. Áhersla er lögð á að byggja nýjan leikskóla, nýjan grunnskóla og nýtt íþróttahús – allt er þetta grundvöllur að þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir og öll eru þessi verkefni langt komin í undirbúningi og framkvæmdir við það að hefjast. Að auki hefur sleitulaust verið unnið að undirbúningi hreinsistöðvar við Ölfusá, þannig að leiðinlegum bletti á sögu Árborgar verði loks eytt.

Fjölgun íbúa og fyrirmyndarþjónusta

Fjölgun íbúa er ekki sérstakt markmið með ímyndarherferðinni sem nú stendur yfir. Fjölgun gesta og jákvæð ímynd er númer eitt. Það er hinsvegar ekki áhyggjuefni þótt íbúum fjölgi, það ætti að vera fagnaðarefni – í því felast tækifæri. Þau stórverkefni sem sveitarfélagið stendur nú frammi fyrir vegna framkvæmda við leikskóla, skóla, íþróttamannvirki, hreinsisstöð og aðra inniviði verða léttari ef fleiri íbúar eru til að axla þungann af þeim. Nýir íbúar eru og verða áfram velkomnir í Árborg.

Það er meginmarkmið bæjaryfirvalda að þjónusta í Árborg verði á öllum sviðum til fyrirmyndar. Nú er unnið hörðum höndum að því að bregðast við öllum hnökrum sem mikil fjölgun kann að hafa valdið í þjónustuframboði og með markvissum vinnubrögðum mun það takast mjög fljótt. Þeir ungu foreldrar sem hafa lent í óvissuástandi vegna tímabundins skorts á leikskólaplássum eru hér með beðnir afsökunar fyrir hönd sveitarfélagsins. Þjónusta við íbúa er á öllum sviðum batnandi og á næstu misserum munu íbúar upplifa stöðugar framfarir sem skila munu framúrskarandi þjónustu í þeirra þágu.

Til að bregðast við íbúafjölgun skiptir öllu mál að vera vel vakandi, horfa til framtíðar, skipuleggja, marka stefnu og vera vel undirbúin. Bæjaryfirvöld munu ekki láta það henda á þessari vakt að sofna á verðinum. Íbúar munu finna þetta og eiga allir með stolti að geta hampað nafni Árborgar og nöfnum Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Sandvíkurhrepps.

Verið öll velkomin í Árborg!

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.

 

Nýjar fréttir