-6.1 C
Selfoss

Að lesa útafliggjandi er ávísun á svefn

Vinsælast

Sólveig Sigmarsdóttir er kennari að mennt og starfar við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún kennir dönsku og íslensku sem annað mál. Sólveig hefur búið á Selfossi frá því hún var ársgömul og telur sig af þeim ástæðum vera Selfyssing.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood. Þannig er að ég er meðlimur í bókaklúbb hér á Selfossi með öðrum sex konum. Við hittumst með mislöngu millibili eftir því hversu virkar við erum að lesa og eigum notalega kvöldstund og ræðum efni bókanna. Þetta eru alltaf gæðastundir þar sem fróðleikurinn fýkur yfir hæðir.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þessi spurning er erfið. Ég ætti auðveldara með að svara hvers konar bækur mér líkar ekki við að lesa. Ég laðast helst að  bókum sem fjalla um hversdagslega hluti sem auðvelt er að tengja við sjálfan sig.

Fékkstu lestraruppeldi sem barn?

Ég er heppin að vera alin upp í stórum systkinahópi þar sem ég var næst yngst. Þegar systir mín sem er þremur árum eldri byrjaði í skóla fannst mér það áhugavert og vildi herma eftir því sem hún var að gera. Afraksturinn var sá að ég varð læs á undan henni og þar með opnaðist mér heimur bókarinnar. Ég er fædd árið 1961 og þá var ekki sjónvarp til að horfa á þannig að bókin varð góður vinur og er það enn. Ég man hinsvagar ekki eftir því að það hafi verið lesið fyrir mig enda stórt heimili og mikið að gera. Það virtist ekki hafa komið að sök því áhugi minn á bókum kviknaði um leið og ég varð sjálfbjarga með lesturinn og á ég margar góðar minningar tengdar því. Í bókunum var alltaf hægt að sökkva sér á vit ævintýra og spennu og auðvelt að ímynda sér sjálfa sig sem eina af aðalhetjunum. Uppáhaldsbarnabókin mín er líkega Sagan af unga litla en mér fannst hún vera gríðarlega sorgleg og vakti upp mikla samkend með þessum litla hænuunga. Annars var ég mikill aðdáandi Nancy bókanna eftir Carolyne Reene og átti margar þeirra. Einnig get ég nefnt Dularfullu bækurnar og Fimm bækurnar.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les alltaf uprétt sitjandi við borð, í stól eða sófa. Ég get ekki lesið útafliggjandi enda er það bara ávísun á svefn. Ég vel frekar að lesa rafbækur því þá er möguleiki á að stækka letur, breyta birtustigi og lítil hætta á að kisa sulli kaffi á bókina.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Það eru nokkrir rithöfundar sem hafa heillað mig meira en aðrir og má þar nefna breska rithöfundinn Ian McEvan, brasilíska höfundinn Paulo Coelho og danska rithöfundinn Helle Helle. Ástæðan fyrir þvi að ég heillast af verkum þessara höfunda er að þegar ég hef lokið lestri bóka þeirra þá er eins þeir hafi skilið eitthvað eftir í mér sem ég hef nýtt mér og fær mig til að hugsa dýpra en vanalega.

Hefur bók rænt þig svefni?

Trilógian eftir Stig Larson gerði það en ég las bækurnar þrjár næstum í einni lotu og þá var lítið sem ekkert sofið.

En að lokum Sólveig, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég myndi skrifa barnabækur. Það er ekkert eins heillandi og góðar og vel skrifaðar barnabækur. Börn eru kröfuharðir hlustendur og það er hægt að ná svo vel til þeirra í gegnum góðan texta, hvort sem hann er í bundnu máli eða sem saga.

Nýjar fréttir