-4.3 C
Selfoss

Handavinna og spjall í Konubókastofu á Eyrarbakka

Vinsælast

Haustrigningin rennur í stríðum straumum niður rúðurnar í Konubókastofu á Eyrarbakka. Fyrir innan, í hlýjunni, sitja nokkrar konur með handavinnu eða kaffibolla og spjalla. Þegar blaðamann bar að garði er búið að dekka borð með bollum og kaffi. Ein kvennanna kom með dásamlega ljúffengt heimagert krækiberjahlaup og kex til að hafa með kaffinu. Við spurðum Önnu Jónsdóttur, eiganda Konubókastofu um hvað drifi þær í að hittast. „Þetta er í annað sinn sem við hittumst. Aðallega er þetta hugsað til að skapa einhvern stað eða rými til að hitta annað fólk. Við erum auðvitað með opið fyrir alla, ekki bara konur. Vettvangurinn er þannig að þú bara mætir ef þú vilt. Engin krafa eða pressa. Og hér verður til skemmtileg stemning og spjall,“ segir Anna. Meðan blaðamaður ræðir við Önnu eru hinar konurnar í hrókasamræðum um lífsins gagn og nauðsynjar. Aðspurðar um hvað þær sæki í félagsskapinn segir ein kvennanna: „Tímasetningin er dásamleg. Hér get ég komið og endurnært mig áður en börnin koma heim, en ég vinn heima. Það er gott að komast út og finna félagsskap með öðrum. Maður gerir það ekkert endilega á kvöldin með börn.“ Áhugasömum um félagskapinn er bent á Facebook-síðu Konubókastofu.

Dásamlegasta krækiberjahlaup í heimi. Mynd: GPP

 

Nýjar fréttir