-6.1 C
Selfoss

Svolítið um súrefni

Vinsælast

Maðurinn þarf að grunni til þrennt til að halda sér á lífi: Mat, vatn og súrefni. Án matar getur hann lifað í 40-60 daga en án vatns einungis í fáeina daga. Styst getum við lifað án súrefnis. Við notum súrefnið í hvers konar bruna í líkamanum, til þess að halda á okkur hita, starfsemi líffæra gangandi, svo sem hjartslætti, meltingu, heilastarfsemi, hreyfingu vöðvanna o.s.frv. Heilinn er það líffæri sem viðkvæmast er fyrir súrefnisskorti og er þar um mínútuspursmál að ræða. Hlutfall súrefnis í andrúmslofti er 21%. Það er hlutverk lungnanna að koma súrefninu til rauðu blóðkornanna sem bindast því og flytja með blóðrásinni út um líkamann. Vefir líkamans taka við súrefninu og skila frá sér koltvísýringi sem flyst með blóðinu til lungnanna og við öndum frá okkur. Hlutfall súrefnis í útöndunarlofti er u.þ. 17%. Við erum viðkvæm fyrir því ef hlutfall súrefnis í innöndunarlofti lækkar eða ef við getum ekki nýtt okkur súrefnið í andrúmsloftinu.

Hlutfall súrefnis getur lækkað við aðstæður þar sem aðrar lofttegundir ryðja súrefninu burt, s.s. koltvísýringur eða kolsýrlingur, gas getur einnig brennt upp súrefni. Súrefni getur einnig gengið í efnasamband við blautt járn – sem þá ryðgar. Slík lækkun á súrefni á sér stað í lokuðum rýmum og þó nokkur dæmi eru um slys við þannig aðstæður. Þegar tiltekinni hæð yfir sjávarmáli er náð lækkar loftþrýstingur og hlutfall súrefnis í andrúmslofti minnkar.

Ýmsir sjúkdómar geta valdið því að einstaklingar geta ekki nýtt sér súrefni í andrúmsloftinu. Þar á meðal eru lungna- og öndunarfærasjúkdómar, einnig getur alvarleg blæðing eða truflun á blóðrás valdið alvarlegum súrefnisskorti, þar sem nægt súrefni berst þá ekki með blóðrásinni út til vefjanna. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að bregðast skjótt við, meðhöndla orsakir og nauðsynlegt getur verið að gefa fólki hreint súrefni, sem er flokkað með lyfjum.

Einn þeirra sjúkdóma sem orsakað getur ónógt flæði súrefnis til vefja er kæfisvefn og um hann verður fjallað í næstu grein.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar í Vík

 

 

Nýjar fréttir