-3.4 C
Selfoss

Bjórhátíð í Hveragerði

Vinsælast

Bjórmenningin á Íslandi hefur líklega aldrei verið gróskumeiri en nú. Hér er ekki verið að tala um fjölda innbyrtra lítra af ölinu góða heldur í fjölda örbrugghúsa og tegunda sem fyrirfinnast á Íslandi um þessar mundir, áhugasömum bjórunnendum til mikillar gleði. Það er ekki magnið sem skiptir máli heldur öðru fremur gæði og bragð. Sunnlenskir bjórelskendur geta glaðst í sinni því fyrir liggur að bjórhátíð á vegum Ölverks brugghúss í Hveragerði verður haldin í gróðurhúsi í hjarta bæjarins 5. október nk. Sennilega hafa aldrei jafn margir bjórframleiðendur, smáir sem stórir, leitt saman hesta sína á sama bletti og ljóst með öllu að það er að æra óstöðugan að komast yfir allar þær tegundir sem í boði verða. Dagskráin leit við á Ölverki og spjallaði um málið við Laufeyju Sif Lárusdóttur, einn eigenda fyrirtækisins.

 Menningarbragur og nýsköpun

„Við erum að fara að fagna tveggja ára afmæli brugghússins okkar núna 5. október og langaði okkur mikið að gera eitthvað skemmtilegt á þeim tímamótum. Niðurstaðan varð sú að halda bjórmenningarhátíð hér í gróðurhúsunum rétt norðan við Ölverk og bjóða öðrum brugghúsum að koma með okkur og gera daginn áhugaverðan og skemmtilegan fyrir unnendur á góðu öli,“ segir Laufey. Óhætt er að segja að nærri allir sem eitthvað koma nálægt bruggun á bjór verði á svæðinu með sína framleiðslu sem og aðrir sérframleiðendur. „Þetta er auðvitað spennandi og hefur ekki verið gert hér áður. Við Elvar brennum dálítið fyrir því að brydda upp á nýjungum og hugsa út fyrir kassann sem sést kannski best á bjór- og pizzuframleiðslunni okkar en við höfum gaman af því að gera hinar ýmsu tilraunir með það að markmiði að gleðja okkar kúnnahóp.“ Aðspurð segir Laufey að hátíðin sé fyrst og fremst hugsuð í anda hægmenningar. Koma, upplifa og njóta er aðalatriðið. „Það verður úrval af spennandi íslenskri bjórframleiðslu hér og líka eitthvað smálegt meðlæti eins og Pretzel sem er úr heimabyggðinni Hveragerði. „Við vitnum aðeins í októberfestið enda ekki annað hægt þegar október og bjór er annarsvegar,“ segir Laufey.

Dagskráin sniðin að vistvænum samgöngum

Þegar haldin er hátíð sem þessi þarf að huga að ýmsum þáttum og bjór og akstur fer aldrei vel saman. Lausnin á því var auðfundin og hátíðin því sniðin kringum vistvænar samgöngur. „Það þarf enginn að láta sig vanta hingað á bjórhátíðina og geta hátíðargestir nýtt sé almenningssamgöngur með því að koma hingað með strætó frá Reykjavík eða Selfossi og verið komnir á hátíðina á passlegum tíma og verið fram eftir kvöldi. Það þarf því enginn að vera á vergangi með það að fá far fram og til baka til síns heima,“ segir Laufey. Áhugasamir sem og sannir bjórunnendur ættu ekki að láta þessa bjórhátíð framhjá sér fara og tryggja sér miða.

Laufey og Elvar.

 

Nýjar fréttir