-1.1 C
Selfoss

Skaðvaldar í skógum eru raunveruleg hætta

Vinsælast

Dagana 17. – 18. september sl. var haldin ráðstefna um skógarheilsu í framtíðinni á Hótel Örk í Hveragerði. Umræðuefni ráðstefnunnar var skógarheilsa framtíðarinnar og hvernig bregðast megi við skæðum nýjum skaðvöldum og sjúkdómum í skógum á Norðurlöndum. Hnattræn hlýnun hefur þau áhrif að skaðvaldar og sjúkdómar færast sífellt norðar og skógar m.a. á Íslandi verið í hættu af þessum sökum. Dagskráin hitti Eddu Sigurdísi Oddsdóttir, sviðstjóra rannsóknasviðs hjá Skógræktinni að máli.

Innflutningur eykur hættu á skaðvöldum

„Á ráðstefnunni var rætt um aukna áhættu vegna innflutnings á skaðvöldum sem sloppið geta í íslenska náttúru. Samfara því sem veðurfar hefur breyst hér á landi, hafa innflutningsleiðir fyrir pestir stóraukist. Hvað skaðvalda í skógi, sem og öðrum gróðri, eru innfluttur eldiviður, plöntur ýmiskonar og mold sérstaklega varhugaverð. Í þessu geta leynst skaðvaldar sem gætu gert mikla skráveifu í íslenskum skógum.“ Aðspurð hvort ekki séu uppi neinar varnir hvað þetta varðar segir Edda: „Nei því miður höfum við ekki nægilega sterk tæki í höndunum með þetta, sérstaklega þegar upp koma nýir skaðvaldar. Engar stjórnvalds- eða valdheimildir og engar bætur til að greiða fyrir skaðann sem af hlýst ef það t.d. þarf að farga plöntum í framleiðslu. Það eina sem við getum gert er að biðja fallega og vonast til að málið leysist. Það þarf því að huga að þessum málum sér í lagi ef við ætlum að fara að leggja áherslu á skógrækt til kolefnisbindingar. Dauð tré kolefnisbinda ekki neitt. Það er í raun vandinn í hnotskurn.“

Skaðvaldar af ýmsum gerðum

Í fyrirlestrum á rástefnunni var farið yfir þá skaðvalda sem menn hafa helst áhyggjur af. Þar á meðal voru sveppategundir, meindýr og sjúkdómar. „Við getum litið á þetta út frá íslenska birkinu sem dæmi. Það hefur verið einangrað hér um aldir og lítið þurft að kljást við af skaðvöldum. Við sjáum t.d. hvernig nýir skaðvaldar eins og birkikemban og birkiþélan hafa farið með birkið. Í Evrópu hafa menn miklar áhyggjur af barkarbjöllu á birki (Birch Bronse Beetle) sem er norður-amerísk tegund og hefur verið mjög skæð á evrópsku birki. Hættan er að ef sú bjalla kæmi til landsins þá gæti hún hreinlega étið upp það sem við eigum af birki hér á landi. Hún er afar skæð. Þetta er dæmi um hversvegna þessi mál eru mikilvæg,“ segir Edda með áherslu.

Höfum tækifæri til að leysa vandamálin

Blaðamaður bendir á líkindi við umræðu um íslensku húsdýrin og hættu á sjúkdómum í þeim með innflutningi. „Því er eins farið með skógana okkar. Nema þegar að við erum að tala um varnir gegn dýrasjúkdómum þá leggjum við mikið upp úr því að vanda okkur þar. Við þurfum að taka upp þessa sömu hugsun varðandi flóruna okkar. Við höfum ýmis tæki í hendinni til að bregðast við. Það er einfaldara fyrir okkur þar sem við erum eyja en marga aðra. Viðbragðið gæti verið þríþætt hjá okkur. Það fyrsta væri að stoppa skaðvaldana áður en þeir koma til landsins, með því að takmarka innflutning á viðarafurðurm, ekki síst með berki, því þar leynast hætturnar. Vöktunarkerfi í kringum þá staði þar sem innflutningurinn er og því mesta hættan er á að skaðvaldar sleppi þyrfti að vera til staðar til þess að  finna þá sem sleppa í gegn og eyða þeim eftir að þeir koma til landsins. Í þriðja lagi þarf að vera eitthvert kerfi um hvernig við ætlum að takast á við það ef skaðvaldurinn er kominn á skrið og við ráðum illa við hann.“

 

 

Nýjar fréttir