-3.1 C
Selfoss

Eigi skal höggva

Vinsælast

Á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga árið 2018 var samþykkt tillaga um að óheimilt væri að veiða í net á vatnasvæði Veiðifélags Árnesinga árið 2019.  Tillöguna flutti Drífa Kristjánsdóttir og hafði bakhjarla sem söfnuðu umboðum til að ná meirihluta á fundinum, þau umboð komu bæði frá  þeim sem veiða á stöng og líka frá þeim sem veiða í net. Sumir þeirra sem gáfu umboð geta ekki nýtt hlunnindi sín nema að veiða í net. Það eitt segir að ekki hafi verið kynnt til hvers nota ætti umboðin (atkvæðin) á fundinum. Þessi umboðssöfnun kom fundarmönnum í opna skjöldu.  Um 45 félagsmenn voru á fundinum, fimm þeirra réðu fundinum i formi umboðssöfnunar. Fram kom á aðalfundinum að netaveiðijarðir mundu eiga rétt til skaðabóta úr hendi stangveiðijarða eins og lög um Lax- og silungsveiði kveða á um.  Bæturnar eru ákveðnar eftir mat þar til bærra matsmanna. Þrír netaveiðibændur og tveir stangveiðibændur ( sjá síðar) leituðu eftir úrskurði Fiskistofu hvort tillaga þessi væri lögleg, þar að segja að banna tiltekna veiðiaðferð (net) sem fæli í sér að hlunnindi yrðu tekin af fólki.  Niðurstaða Fiskistofu var að tillaga þessi væri ólögleg.  Árni Baldursson kærði þá niðurstöðu til Héraðsdóms Suðurlands með stefnu á þá aðila sem leituðu til Fiskistofu auk sjálfs Veiðifélags Árnesinga. Árni Baldursson stefndi eftirtöldum aðilum: Haraldi Þórarinssyni Laugardælum, Kjartani Helgasyni Haga, Hrafnkatli Karlssyni Hrauni, Guðmundi Þorvaldssyni Bíldsfelli og Magga Jónssyni Kotferju og Veiðifélagi Árnesinga en þess má geta að hann situr í stjórn félagsins. Þeir aðilar sem leituðu til Fiskistofu hvort sú tillaga sem samþykkt var á aðalfundinum 2018 væri löglega voru sem sagt kærðir til Héraðsdóms fyrir að leita réttar síns til Fiskistofu

Á stjórnarfundi Veiðifélags Árnesinga 28. mars sl. var samþykkt samhljóða að taka til varna v/stefnu Árna Baldurssonar á hendur félaginu. Stjórnarmenn sem sátu fundinn voru: Jörundur Gauksson, Ólafur Þór Þórarinsson, Tryggvi Steinarsson, Kjartan Sveinsson, Þráinn Jónsson, Stefán Jónsson og fyrsti varamaður Ester Guðjónsdóttir í forföllum Árna Baldurssonar. Jafnframt var samþykkt á fundinum að gera ráð fyrir 800.000 kr. í fjárhagsáætlun félagsins vegna málarekstursins.

Á  aðalfundi Veiðifélags Árnesinga árið 2019 lá fyrir að kærður væri úrskurður Fiskistofu til Héraðsdóms. Í sumar kvað Héraðsdómur Suðurlands upp sinn úrskurð og var niðurstaðan að málinu væri vísað frá og málskostnaður felldur niður.  Þá töldu menn að málinu væri lokið.  En svo var ekki raunin.  Árni Baldursson stjórnarmaður í Veiðifélagi Árnesinga áfrýjaði til Landsréttar. Landsréttur úrskurðaði í málinu 4. sept. sl. og vísar því aftur til Héraðsdóms Suðurlands til efnislegrar meðferðar og dæmdi þá aðila sem leituðu til Fiskistofu til greiðslu 350.000 kr vegna málskostnaðar. Ekki er mér ljóst hver lögfræðikostnaður af málinu öllu er, enda málinu ekki lokið.

Í lögum um Lax- og silungsveiði segir að ef gengið er á rétt einstakra félagsmanna til veiði þá skulu þeim dæmdar bætur eftir mati. Í þessu tilfelli koma bæturnar frá þeim jörðum sem veiða á stöng. Bótareglur eru skýrar í lögum um Lax- og silungsveiði.  Ljóst má vera að þeir aðilar sem leituðu eftir úrskurði Fiskistofu vegna málsins komu í veg fyrir að matsmenn væru skipaðir til að meta bætur til handa netajörðum úr hendi stangveiðijarða vegna ársins 2019. Ég ætla að stangveiðijarðirnar hefðu ekki verið mjög fúsar að inna af hendi þann kostnað sem af matinu kunni að hafa leitt, hvað þá heldur bótunum. Á aðalfundi  Veiðifélags Árnesinga 2019 var samþykkt að netaveiði væri heimil á árinu 2019 með teknu tilliti til úrskurðar Fiskistofu en þá lá annar úrskurður ekki fyrir.

Væri nú ekki rétt að aðilar ræði saman og finni leið sem einhver sátt væri um t.d. með frjálsum samningum milli neta- og stangveiðijarða eða hina löglegu leið til neta upptöku, heldur en að höggva mann og annan.

Þessar örfáu línur eru settar hér fram til að upplýsa félagsmenn í Veiðifélagi Árnesinga um gang mála og þá um leið að menn gái að sér til hvers eigi að nota umboð til atkvæðisréttar á aðalfundi félagsins. Ef leggja á niður netaveiði á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár þá er rétt að fara löglegu leiðina en hún er til staðar í lögum félagsins og í lögum um Lax- og silungsveiði.  Undirritaður er félagsmaður í Veiðifélagi Arnesinga og var dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna málsins í Landsrétti. Þeir aðilar sem gáfu umboð á aðalfund 2018 um að banna netaveiði komu mér á spjöld sögunnar í Landsrétti.

Gjör rétt þol ei órétt.

Kjartan Helgason, Haga,

 

 

 

Nýjar fréttir