-4.4 C
Selfoss

Er Njáluhöfundur fundinn?

Vinsælast

Nú í vikunni kom út bókin Leitin að Njáluhöfundi. Bókin er skrifuð af Gunnari Guðmundssyni, oftast kenndum við Heiðarbrún. Gunnar er fyrrum kennari en hann hefur víða starfað, ýmist sem skólastjóri og kennari, síðast á Hellu. Margir kannast við Gunnar frá vinnu sinni í Veiðivötnum á Landmannaafrétti þar sem hann sinnti ýmsum störfum. Gunnar hefur búið á Hellu síðan 1983 en er kenndur við Heiðarbrún, þar sem faðir hans bjó síðast, og hefur hann ekki fundið neina ástæðu til að breyta því.

Gunnar hefur stundað ýmis ritstörf í gegnum tíðina. Það var ekki fyrr en komið var á eftirlaunaaldur sem Gunnar fór að skrifa bækur.

Veiðivötn við Landmannaafrétt

Leitin að Njáluhöfundi er ekki eina ritverk Gunnars því árið 2017 gaf Gunnar út bókina Veiðivötn við Landmannaafrétt. Bókin kom út í tveimur bindum og varð strax mjög vinsæl hjá áhugafólki um Veiðivötnin.

Það tók Gunnar hvorki meira né minna en 33 ár að vinna bókina. Allt frá því hann byrjaði að taka fyrstu viðtölin við gamla Veiðivatnamenn og þar til bókin fór í prentun. Á þessum árum viðaði hann að sér heimildum og efni. Það var ekki fyrr en eftirlaunaárin tóku við sem hann gat einbeitt sér af fullum krafti í að klára bókina.

„Ég er svo ánægður með það að hafa náð að taka viðtöl við nokkra menn sem gjörþekktu Veiðvötnin í gamla tímanum. Það mátti ekki seinna vera því sumir þeirra dóu nokkru seinna. Einnig að geta fest í bókarform þessar heimildir sem annars hefðu algjörlega glatast og gert þær þannig aðgengilegar um ókomna tíð,“ segir Gunnar glaður í bragði. Áður en Veiðivatnabókin kom úr prentun, var hann byrjaður á þeirri næstu, sem er hér til umfjöllunar og heitir Leitin að Njáluhöfundi.

Áhuginn fyrir Íslandasögunum byrjaði snemma

Það var faðir Gunnars og Helga, amma hans, sem vöktu áhuga hans á fornum fræðum. „Það gerðist einstöku sinnum að Helga amma mín og faðir minn fóru að minnast á fornmenn eins og Snorra Sturluson og bróður hans Sighvat á Grund og ekki síður Egil Skallagrímsson og Gunnar á Hlíðarenda. Níu ára gamall byrja ég að spyrja ömmu mína nánar út í Gunnar á Hlíðarenda og þá strax var áhuginn aðeins kominn,“ segir Gunnar.

„10 ára gamall minnist ég þess að ég var að lesa í Íslandssögunni og mér þótti það nú lítið skemmtilegt.“

Þótt Gunnar hefði aðeins komist á bragðið, þá 10 ára gamall, þótti honum lítið skemmtilegt að lesa Íslendingasögurnar. „Faðir minn hneykslaðist aðeins á þessu áhugaleysi og sagði við mig: „Að þér skuli ekki þykja gaman að lesa þessar stuttu og skemmtilegu sögur í Íslandssögunni.““ Eftir þau orð gaf Gunnar sögunum annað tækifæri. Við nánari athugun fannst honum sögurnar bara nokkuð skemmtilegar og ekki eins „helvíti langar“ og þær voru við fyrstu kynni. Um 11 – 12 ára aldur var áhugi Gunnars á Íslandsfræðum orðinn slíkur að hann vissi meira um kveðskap Egils Skallagrímssonar en Halldóra Þórhallsdóttir, kennari hans.

Gunnar minnist þess einnig árið 1955, þegar hann var 15 ára gamall að honum barst jólagjöf frá Birni Sigurbjarnarsyni, bankagjaldkera á Selfossi. Gjöfina þótti honum ákaflega vænt um en Björn hafði þá gefið honum nýútkomna og vísindalega útgáfu af Brennu-Njáls sögu. „Ég vissi að þótt Björn hafi líklega verið með all þokkaleg laun, miðað við það sem venjulegir launamenn höfðu, þá var bókin fok helvíti dýr,“ segir Gunnar með áherslu.

Rökstuddar kenningar

Bókin Leitin að Njáluhöfundi skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum þreifar Gunnar sig í kringum höfundinn. Reynir að finna hugsunargang hans, þekkingarbakgrunn og lífsskoðanir. Gunnar telur sig hafa náð að þrengja hringinn utan um það hver höfundurinn er. Í seinni hluta bókarinnar eru teknar fyrir 14 kenningar og tilgátur sem fram hafa komið um Njáluhöfund.

Í gegnum tíðina hafa oft blossað upp hatrammar deilur um það hver höfundurinn er í raun og veru. „Tilgátusmiðir hafa dottið í hug einhver ákveðinn maður, sem hlyti að hafa skrifað Brennu-Njáls sögu. Þessir tilgátusmiðir eru síðan í áratugi að reyna sanna og finna nýjar og nýjar sannanir fyrir því að þeir höfðu á réttu að standa.“ Gunnar fór hinn veginn að og skipti m.a. um skoðun í miðjum klíðum.

Augljósar tengingar um hver höfundurinn er

Gunnar telur sig hafa fundið augljós tengsl um það hver Njáluhöfundur sé. „Hann er í miklum tengslum við Þvottá í Álftafirði, fólkið á Keldum á Rangárvöllum sem býr þar í kringum 1260, eða jafnvel seinna og í þriðja lagi er kunnugleiki hans í Vestur-Skaftafellssýslu slíkur að sá kunnugleiki byggist ekki bara á að maðurinn ferðist nokkrum sinnum um, heldur hlýtur eitthvað meira að hafa komið til. Og þá er það spurningin, getum við fundið einhvern mann sem sameinar allt þetta þrennt?“ segir Gunnar. Þessari spurningu er varpað á lesendur bókarinnar.

Gunnar tekur það skýrt fram að honum sé „nákvæmlega sama“ um það hver skrifaði Brennu-Njáls sögu. Gunnar hóf vegferðina og fór í rannsóknir til þess að reyna finna réttan höfund með því að beita sagnfræðilegum rökum.

Sinnir ritstörfum á meðan líf og atgervi er til staðar

Þegar blaðamaður spyr Gunnar hvort hann taki sér hlé á ritstörfum, nú þegar bókin um Njáluhöfund er komin út, segir hann að ekkert slíkt sé í myndinni, enda orðinn „harðfullorðinn maður“. Hann segist ætla að halda áfram að sinna ritstörfum og rannsóknarvinnu á hinum fornu fræðum á meðan hann hefur líf og atgervi til.

Bókin ætti að vera skyldulesning öllum áhugamönnum um Njálu. Hafi fólk áhuga, getur það nálgast Leitin að Njáluhöfundi hjá Fóðurblöndunni á Hvolsvelli og á Hellu, Bókakaffinu á Selfossi, Bóksölu stúdenta í Reykjavík og hjá Forlaginu. Einnig verður hægt að festa kaup á bókinni hjá Gunnari sjálfum.

-brv

Nýjar fréttir