-0.5 C
Selfoss

Sýningarspjall á síðasta sýningardegi hjá LÁ

Vinsælast

Í Listasafni Árnesinga er nú að ljúka sýningunni GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU – stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ, sem er samstarfsverkefni þessara tveggja safna. Á síðasta sýningardeginum, sunnudaginn 15. september kl. 15:00,  mun Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga ganga með gestum um sýninguna, þar sem sjá má 52 málverk af alls 147 sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ, ræða um verkin og svara spurningum.

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur er sýningarstjóri og hún leitaðist við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars og spegla sýn hans á íslenska listasögu. Hún skiptir sýningunni niður í þrjá kafla þar sem fyrst er að sjá upphafin og oft alvöruþrungin landslagsmálverk, því næst portret myndir af nokkrum þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni og að lokum er áherslan á upplausn formsins og sprengikraft litanna. Mörg verkanna eru lykilverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri, sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.

Samhliða sýningunni gaf Listasafn ASÍ út bókverk um gjöf Ragnars í Smára sem ber sama heiti GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU í ritstjórn Elísabetar Gunnarsdóttur safnstjóra Listasafns ASÍ. Í bókinni eru myndir af öllum verkunum sem tilheyra stofngjöfinni og grein um velgjörðamanninn Ragnar og listaverkagjöf hans eftir Kristínu G. Guðnadóttur. Bókin er hönnuð af Arnari og Arnari og Sarah M. Brownsberger þýddi allan texta á ensku.

Sýningin hefur verið mjög vel sótt og rómuð af gestum. Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og sýningarspjallið sunnudaginn 15. september. Aðgangur að safninu er ókeypis

Nýjar fréttir