3.9 C
Selfoss

Hver ný kynslóð þarf að eiga sínar bókmenntahetjur

Vinsælast

Elísabet Valtýsdóttir hefur lengst af starfsferli sínum verið framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem hún kenndi dönsku og latínu. Einnig hefur Elísabet samið kennsluefni í dönsku fyrir grunn- og framhaldsskóla. Elísabet er gift Gísla Skúlasyni íslenskukennara við FSu, á þrjá syni og fimm barnabörn.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Þessa stundina er ég að lesa Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson. Dönsk vinkona mín hrósaði henni einu sinni þegar við vorum að ræða um bækur. Bókin hefur komið mér á óvart fyrir það hve sögumaður er opinskár og einlægur í lýsingum sínum á ástinni. Svo er ég líka með hljóðbókina Silkeorm eftir Robert Galbraith (dulnefni J. K. Rowling). Þetta er krimmi sem er í senn skemmtilegur og grípandi. Þar að auki gríp ég á milli bóka í aðrar sem liggja á náttborðinu mínu án þess að ætla að klára þær strax. Þetta eru annars vegar ljóðasafn og hins vegar nokkrar handbækur.

Hvers konar bækur höfða til þín?

Það eru helst sögulegar skáldsögur, svo og skáldsögur eftir núlifandi höfunda, einkum konur, og norrænar sakamálasögur. Ég var ekki orðin tvítug þegar áhuginn á sögulegum skáldsögum greip mig. Á táningsárunum kynntist ég Íslendingasögunum, og mér þykir mjög vænt um bækur eins og Egils sögu, Laxdælu og Njáls sögu, ekki síst fyrir sterku kvenpersónurnar sem er gaman að lesa um og lifa með mér enn í dag. Á þessum árum las ég einnig skáldsögu um stúlku sem lifði á tímum Faraós í Egyptalandi og aðra frá þeim tíma þegar rannsóknarrétturinn var öflugur í Evrópu. Þessar sögur voru mjög grípandi og auðvelt að lifa sig inn í líf persónanna og finna til með þeim. Auk þess sem ég les sögulegar skáldsögur les ég alltaf eitthvað af íslenskum skáldsögum sem gerast á okkar tíma. Svo finnst mér nauðsynlegt að lesa reyfara inn á milli sem gera annars konar kröfur til lestrarins. Góðir krimmahöfundar vanda líka til verka við persónusköpun og sumir leggja meiri áherslu á aðra þætti en glæpinn, til dæmis Kate Atkinson og Håkan Nesser.

Var lesið fyrir þig sem barn?

Það var lesið fyrir okkur systurnar, en ekki daglega. Ég hef átt margar uppáhaldsbækur á mismunandi skeiðum lífs míns. Í barnæsku minni elskaði ég bókina Börnin í Ólátagarði eftir Astrid Lindgren. Svo eru mér mjög minnisstæðar bækurnar sem lágu í þremur kössum á lágum skáp í skólastofunni okkar í Danmörku. Þetta voru litlar bækur sem nemendur áttu að lesa til að þjálfa lestur, og voru bækurnar flokkaðar í þrjá þyngdarflokka, einn í hverjum kassa. Ég hlakkaði mikið til að lesa sem flestar þessara bóka. Þessi tilhlökkun hefur fylgt mér alveg síðan. Aðrar uppáhaldsbækur sem hafa verið mér mikilvægar eru til dæmis þríleikurinn um Kristínu Lafransdóttur eftir Sigrid Undset sem ég las fyrir tvítugt, og á síðari tímum hefur Reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur setið lengi í mér.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?

Ég les daglega, stundum bara þegar ég er komin upp í rúm, ef ég hef ekki haft tíma til að grípa í bók allan daginn. Á síðustu árum hef ég lesið um 40 bækur á ári, ýmist prentaðar bækur eða hljóðbækur, svo og talsvert af rafbókum. Hljóðbækurnar nota ég þegar ég er að vinna verk með höndunum, til dæmis við þrif. Svo á ég líka lesbretti sem ég tek með mér þegar ég fer í ferðalög. Stundum er ég með þrjár bækur í gangi í einu: prentaða bók, hljóðbók og lesbretti. Til þess að það gangi upp verða bækurnar að vera ólíkar. Það má geta þess að ég er félagi í leshring með nokkrum konum sem skiptast á að velja bók mánaðarins. Slíkt fyrirkomulag eykur breiddina í bókavali. Síðasta bókin sem ég las fyrir leshringinn var Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason. Ég þykist nokkuð viss um að skoðanir um hana séu skiptar.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Sem stendur eru það Auður Ava Ólafsdóttir og Vilborg Davíðsdóttir af íslenskum höfundum. Frásagnarstíll Auðar Övu virkar einfaldur á yfirborðinu, en það er margt ósagt á milli línanna. Persónur hennar eru skýrar og trúverðugar og söguþráðurinn áhugaverður. Vilborg skrifar fyrst og fremst sögulegar skáldsögur sem eins og áður er getið höfða sérstaklega til mín.  Auk þeirra les ég allt sem út kemur eftir sænska krimmahöfundinn Mari Jungstedt og áðurnefndan  Håkan Nesser, sem einnig er sænskur. Bækur Mari Jungstedt gerast allar á Gotlandi og eru vel skrifaðar og spennandi, en þó engin tímamótarit.

Hefur bók rænt þig svefni?

Mér er annt um nætursvefninn minn, svo ég gæti þess að hætta lestri áður en spennan verður yfirþyrmandi. Það hefur þó komið fyrir að ég hef átt erfitt með að sofna ef bókin sem ég er að lesa þá stundina hefur gripið huga minn heljartökum.

Að lokum Elísabet, hvers konar bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ef ég gæti myndi ég skrifa fyrir börn og unglinga, því grunnurinn að góðri lesfærni er lagður í barnæsku. Eftir að farið var að veita barnabókaverðlaun hefur athyglin á barnabókum og skilningur á mikilvægi þeirra aukist, og er það vel. Lestur bóka gefur börnum tækifæri til að spegla sig í persónum bókanna og að setja sig í þeirra spor. Það er þroskandi. Ég hef ekki gleymt hetjunum mínum frá því í barnæsku, þeim Möttu Maju, Shirley, Nancy Drew, Baldintátu, börnunum í Ævintýra- og Fimmbókunum og öllum hinum. Þær veittu mér mikla ánægju þegar ég var að alast upp og ég held að hver kynslóð þurfi að eiga sínar bókmenntahetjur.

Nýjar fréttir