-6.8 C
Selfoss

Tækifæri dreifðra byggða í fjórðu iðnbyltingunni

Vinsælast

Áhugaverð ráðstefna um fjórðu iðnbyltinguna var haldin á sex stöðum í einu á landinu fimmtudaginn 5. september sl. Meðal annars á Hótel Selfossi. Í hugum margra er fjórða iðnbyltingin fjarlægt og óraunverulegt hugtak. Jafnvel að manni finnist að í framtíðinni verði maður óþarfur eða vélar hafa tekið yfir jörðina eða hvað veit maður? Það kom þó í ljós að líklega geti maður horft björtum augum fram á veginn og tækifærin séu ótakmörkuð í því hvernig við þróum tæknina okkur til góðs.

Tækifæri fyrir dreifðar byggðir

Með fjórðu iðnbyltingunni skapast tækifæri fyrir dreifðar byggðir fyrir aukna þjónustu og ný störf en um leið njóta allra þeirra lífsgæða sem búseta í dreifðum byggðum hefur í för með sér. Gríðarleg tækifæri eru fyrir landshlutana og sveitarfélögin hvað varðar atvinnuþróun framtíðar. Það verða til mörg störf sem ekki verða bundin tilteknum starfsstöðvum í framtíðinni. Sú þróun opnar fjölda tækifæra fyrir starfsfólk við að vinna sína vinnu óháð staðsetningu og gæti alveg sérstaklega opnað á hálaunastörf í dreifðari byggðum.

Öflugir innviðir þurfa að vera til staðar

„Til þess að virkja fjórðu iðnbyltinguna í dreifðum byggðum þurfum við rafmagn. Þriggja fasa rafmagn er forsenda atvinnuuppbyggingar í dreifðum byggðum. Ef það á að vera framþróun á landsbyggðinni þörfnumst við þess að nóg sé af rafmagni og ekki sé flökt á kerfinu. Þá þurfum við öflugt netsamband úti á landi,“ sagði Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps í erindi sínu á Hótel Selfossi.

Fjarlækningar í Skaftárhreppi

Íbúar í Skaftárhreppi stóðu fyrir söfnun á fjarheilbrigðisbúnaði sem nefnist Agnes. Hún flutti í Skaftárhreppinn 2013 og hefur þjónað íbúum æ síðan. Tölvan Agnes gefur möguleika á sérhæfðari læknisþjónustu nær íbúum. Í fyrirlestri Evu kemur meðal annars fram: „Þjónustan er nær íbúum, dregur úr ferðakostnaði og kemur jafnvel í veg fyrir hann. Í búnaðinum er ýmiskonar tækni eins og lífsmarkamælir, stafræn myndavél, rafræn hlustunarpípa svo fátt eitt sé nefnt. Þetta kemur í veg fyrir það að við þurfum að ferðast 6-7 klst. á höfuðborgarsvæðið í hálftíma viðtal við sérfræðing sem svo ávísar á okkur einhverju lyfi. Í stað þess hittum við Agnesi sem er svo með sérfræðing á hinum endanum sem getur metið málið.“

 

 

Nýjar fréttir